Baðströndin Brúnavík

Ein af helstu perlum Víknaslóða er Brúnavík sem liggur sunnan Borgarfjarðar Eystri. Hún ber nafn með rentu því sléttur Brúnavíkursandurinn er fallega brúnn líkt og líparítklettar upp af honum sem kallast Hrafnaklettar. Ef ekki væri fyrir kaldan sjóinn og óstöðugt veðurfar væri þarna fullkomin baðströnd sem gæfi þeim í suðrænum löndum ekkert eftir, enda skartar Brúnavík tignarlegum fjallgörðum beggja vegna sem enda yst í sæbröttum hömrum.

 

Upp af Brúnavík er mikill og fjölbreyttur gróður með heiðum sem skarta snotrum fífuskreyttum tjörnum. Þarna var löngum tvíbýli, enda tiltölulega snjólétt og tún og engjar sem hentuðu vel til búskapar. Auk þess var lending í Brúnavík og stutt á fengsæl fiskimið sem gerði ábúendum kleift að stunda útræði meðfram búskap.

 

Það er auðveldast að komast í Brúnavík gangandi og liggur algengasta gönguleiðin austan sérlega reisulegs líparítfjalls, Geitfells. Er þá lagt af stað við sjónvarpsmastur á Ölduhamri í Borgarfirði Eystri og gengið þaðan um Brúnavíkurskarð sem liggur í 360 m hæð. Efst býðst frábært útsýni til Dyrfjalla og Dyrfjallatinds en einnig sést vel yfir Borgarfjörð Eystri. Stuttu síðar blasir litrík Brúnavík við með einkar snoturri strönd. Á leiðinni niður í Víkina er gengið framhjá eyðibýlunum uns sést í neyðarskýli SVFÍ. Þar er vaðið eða stiklað yfir fallega á sem rennur eftir dalnum út í Brúnavík. Þarna má kasta mæðinni en í góðu veðri er tilvalið að skella sér í sjósund og jafnvel ná smá húðbrúnku. Saltan sjóinn má síðan skola af sér í litlum fossi í fyrrnefndri á. Ganga fram og til baka í Brúnavík eru 12 km og má hæglega ná á einum degi, og er busl í sjónum þá innifalið. Margir kjósa sömu leið til baka en álitlegur valkostur er að ganga meðfram ánni inn eftir Brúnavík að Brotagili. Þar er göngubrú yfir ánna og vegslóða síðan fylgt yfir Hofstrandarskarð í Borgarfjörð. Einnig má ganga utar úr Brúnavík yfir Hafnarskarð að bænum Höfn sem er ysti bærinn í Borgarfirði Syðra. Sprækt göngufólk ætti hins vegar að þræða áfram Víknaslóðir á nokkrum dögum og skoða í leiðinni næstu perlur í hálsfesti Víknaslóða, Kjólsvík og Breiðuvík.

Share on facebook
Deila á Facebook