Feimið Skálafell

Á Íslandi má víða finna fjöll sem heita Skálafell en tvö slík eru í næsta nágrenni Reykjavíkur og það þriðja á Reykjanesi. Skálafell austan Esju er þeirra hæst, eða 774 m, en um leið langþekktasta Skálafell landsins, enda hafa suðurhlíðar þess um árabil fóstrað eitt stærsta skíðasvæði landsins. Skálafelli á Hellisheiði er 200 metrum lægra og lætur mun minna yfir sér, þannig að margir gefa því ekki gaum þegar þeir keyra fjölfarna heiðina. Þetta tígulega en feimna fjall á þó skilið alla athygli, enda saga þess fræg og útsýni af því frábært. Um er að ræða dæmigert móbergsfjall sem myndaðist við gos undir jökli. Heitir hverir eru í norðurhlíðum þess við svokallaða Hverahlíð, en hverasvæðið tengist háhita- svæði Hengilsins.

Ófá Skálafell draga nafn sitt af skálum í hlíðum þess, líkt og Skálfellið austan Esju, en milli þess og Móskarðs- hnjúka er myndarleg skál. Nafn Skálafells á Hellisheiði er þó rakið til forns skála, en í Landnámu segir að „Ing- ólfur lét gera skála á Skálafelli; þaðan sá hann reyki við Ölfusvatn og fann þar Karla.“ Eftir landnám hafði Ingólfur Arnarson sent þræla sína Karla og Vífil að leita öndvegissúlna sinna og fundust þær við Arnarhvol í Reykjavík. Ingólfur settist þar að en það þótti Karla ekki vænlegur kostur og mælti: „Til ills fóru vér um góð héruð, er vér skulum byggja útnes þetta.“ Hljópst hann því á brott og tók með sér ambátt eina. Fann Ingólfur síðan Karla við skála sinn í Skálafelli. Tóftir hafa fundist í hlíðum fjallsins en óvíst er um aldur þeirra.

Það er auðvelt að ganga á Skálafell og gangan hentar jafnt ungum sem öldnum. Af þjóðveginum yfir Hellis- heiði er sveigt í suður og fylgt slóða Orkuveitunnar að Hverahlíð. Gengið er yfir tiltölulega slétt hraun og stefnt á öxl fjallsins norðaustan megin í því. Þaðan er greið leið á tindinn en efst er frábært útsýni yfir Hellisheiði, Hengilsvæðið en líka Ölfus og Suðurlandsundirlendið. Í fjarska glittir í Heklu, Tindfjallajökul og Eyjafjallajökul og úti í hafsauga Vestmannaeyjar og Surtsey.

Hægt er ganga sömu leið til baka en við mælum með að ganga í kringum fjallið og koma aftur niður í Hvera- hlíð. Á veturna er þessi leið einnig tilvalin fyrir ferða- skíði.

Share on facebook
Deila á Facebook