Fjallasund með vatnanykri

Búrfell í Grímsnesi er 534 m hátt móbergsfjall sem sést víða af Suðurlandi. Hér á landi eru hátt í 40 Búrfell en útlit þeirra minnir óneitanlega á forn matarbúr og jafnvel búrhvali. Búrfell í Grímsnesi er eitt af þeim þekktari, enda reisulegt og í nágrenni þess eru einhverjar stærstu sumarbústaðabyggðir landsins; í Grímsnesi, Þrastaskógi og við Álftavatn. Búrfell er myndað við gos undir jökli en efst á því er dæld með gígvatni en gígurinn er talið hafa myndast í þeytigosi. Þjóðsagan segir að í þessu fallega vatni búi nykur en þeir eru þekktar þjóðsagnaskepnur hérlendis sem og í fleiri norrænum löndum. Nykur minnir helst á gráan hest nema hvað hófarnir snúa aftur og hófskeggin fram. Þeir halda aðallega til í stöðuvötnum og ám en ganga á land og reyna þar að tæla menn á bak sér. Þetta gerist sérstaklega ef þeir nafns sín getið og steypa sér þá með knapann í vatnið og drekkja honum. Nykurinn á Búrfelli er einstakur því hann getur ferðast í gegnum göng að tjörninni í Kerinu, sem einnig er að finna í Grímsnesi.

Ganga á Búrfell er ágætis skemmtun og hentar jafnt ungum sem öldnum. Lagt er af stað frá bænum Búrfelli sunnan undir fjallinu, en þangað er klst. akstur úr Reykjavík. Frá bílastæðinu er gengið eftir göngustíg norður upp á brún fjallsins. Þar tekur við sléttari kafli og síðan blasir fallegt gígvatnið við. Gaman er að ganga í kringum það og jafnvel fá sér sundsprett ef heitt er í veðri. Útsýni er frábært, m.a. yfir Þingvallavatn og Laugarvatn, en einnig sést í Ingólfsfjall, Botnssúlur, Skjaldbreið, Heklu, Tindfjöll og Eyjafjallajökul. Oftast er gengin sama leið niður en fleiri gönguleiðir eru þó í boði. Gangan er 6 km fram og til baka og tekur í kringum þrjár klst. Á leiðinni heim er tilvalið að koma við í  Kerinu sem er 270 m langur og 170 breiður gígur með 7-14 m djúpri fagurlega litaðri tjörn. Við Kerið, líkt og efst á Búrfelli, er best að láta nykurinn eiga sig og alls ekki kalla nafn hans. Annars er hætt við óvæntum leiðarlokum.

 

Share on facebook
Deila á Facebook