Gengið niður málverkið

Sumir staðir á Íslandi eru litríkari en aðrir. Landmannalaugar og Torfajökulssvæðið koma fyrst upp í hugann en einnig Kerlingarfjöll, Víknaslóðir og síðast og ekki síst Lónsöræfi. Öll eiga þessi svæði sameiginlegt að státa af líparíti sem er „súrt“ gosberg og kallast svo vegna hás hlutfalls kísils (SiO2) í berginu. Líparít myndast við eldgos og getur tekið á sig ýmsa liti eftir aðstæðum kólnunar þar sem ljósbrúnn er mest áberandi en grænn, rauður, og grár koma einnig við sögu. Við snögga kælingu í vatni getur bergkvikan síðan storknað sem svart gler og kallast þá hrafntinna. Lónsöræfi, eða Stafafellsfjöll eins og heimamenn kalla þau oft, er fallegt nafn á eitt stórkostlegasta málverk íslenskrar náttúru. Þarna er ógleymanlegt að koma en krefst undirbúnings. 

Auðvelt er að komast akandi austur í Lón frá Hornarfirði en þaðan má kaupa aðstoð heimamanna yfir hina viðsjárverðu Skyndidalsá sem getur verið farartálmi í rigningum en eykur bara á aðdráttarafl Lónsöræfa. Ekið er inn að Illakambi en þaðan er hálftíma ganga að Múlaskála í sunnanverðum Kollumúla þar sem er tilvalið að gista í skála eða slá upp tjaldi. Annar valkostur er að ganga frá Stafafelli í Múlaskála á einum eða tveimur dögum. Þetta er stórkostleg gönguleið og er komist yfir Jökulsá í Lóni á veglegri göngubrú. Frá Múlaskála bjóðast ýmsar og fjölbreyttar gönguleiðir í allar áttir, t.d. að hinum mögnuðu Tröllakrókum, upp á Sauðhamarstind eða inn í Leiðartungur. Ekki síður tilkomumikil og einfaldari gönguleið liggur upp svokallaðar Víðibrekkur – sem líkja má við spássitúr í málverki.  

Líparíthryggir í öllum regnbogans litum eru í aðalhlutverki en þeir eru skornir í sundur af dökkbrúnum berggöngum sem líkjast hnífsblöðum. Þetta sést hvað best í Kambsgili sem ber nafn með rentu. Þessir berggangar eru með þeim tilkomumestu á Íslandi en þeir verða til þegar bergkvika þrýstist út í sprungur og storknar þar. Þeir eru því yfirleitt yngri og harðari en bergið í kring og standa því betur af sér veðraöflin. Víðibrekkum er auðvelt að ná í dagsferð en einnig má ganga niður þær á leiðinni heim af Sauðhamarstindi sem er frábært útsýnisfjall. Úsýni frá Víðibrekkum er einnig magnað en leikmyndin er prýdd austanverðum Vatnajökli, Snæfelli sem er hæsta fjall utan jökla á Íslandi og Jökulgilstindum, svipmiklum tindum upp af Lóni.

Share on facebook
Deila á Facebook