Græn vin milli jökla

Einhver veðursælasti staður á Íslandi er Skaftafell sem þakka má skjóli frá fjallgörðum í  vestri og austri, ekki síst Öræfajökli. Sunnanáttir bera síðan með sér ríkulega úrkomu sem ásamt hlýjum sumardögum skýra fjölbreyttan gróður. Hann er hvað mest gróskumestur á Skaftafellsheiði sem líkja má við græna gróðurvin sem felur sig milli risastórra jökla. Heiðin tilheyrði áður Skaftafellsþjóðgarði sem síðar rann inn í Vatnajökulsþjóðgarð. Skaftafell var löngum stórbýli og stóðu bæirnir á láglendi neðan Skaftafellsheiðar. Tíð eldgos og jökulhlaup neyddu síðan Skaftafellsbændur að færa byggð ofar á heiðina og og hétu síðustu nýbýlin Hæðir, Bölti og Sel. Þetta eru með fallegustu bæjarstæðum á Íslandi þar sem iðagræn Skaftafellsheiðin kallast á við snævi þakkta tinda Öræfajökuls.

 

Á Skaftafellsheiði bjóðast frábærar gönguleiðir í allar áttir og er tilvalið að hefja gönguna við tjaldstæðið í Skaftafelli. Fyrst er tilvalið að ganga að einum fallegasta fossi landsins, Svartafossi, sem státar af fallega mótuðu stuðlabergi sem sagt er að sé fyrirmyndin að loftinu í Þjóðleikhúsinu. Frá Svartafossi er stutt ganga að Skaftafellsbæjunum þremur en torfbærinn í Seli er í vörslu Þjóðminjasafnsins. Lengri ganga liggur eftir austanverðri Skaftafellsheiði, svokölluðum Austurbrekkum, að Sjónarnípu. Þar blasir við ógnarlangur Skaftafellsjökull, skreyttur myndarlegum miðlægum urðarrana og jökullóni fremst. Halda má göngunni áfram í norður að Glámu. Þarna ætti sprækt göngufólk að spá í 1126 m háa Kristínartinda en af efsta tindum býðst einstakt útsýni að Skarðatindum, Hrútfjallstindum og Hvannadalshnjúk. Þeir sem ekki kjósa tindabrölt geta í staðinn gengið í vestur að Skorum, en þangað má einnig komast af Kristínartindum. Útsýnið er ekki síðra en austan megin á heiðinni og ber mest á ljósgráum botni Morsárdals og litríkum Skaftafellsfjöllum. Þarna glittir einnig í klettadranginn Þumal upp af Kjós og á hlýjum degi má sjá og heyra Morsárjökul steypast fram af þverhnípi innar í dalnum. Einnig sést í hávaxnasta birkiskóg landsins, Bæjarstaðaskóg, og enn fjær Skeiðarárjökul, Súlutinda og Lómagnúp. Heim er gengið eftir slóða vestanmegin á Skaftafellsheiði í áttina að Svartafossi og tjaldstæðinu. Stóri hringurinn með Svartafossi er tæplega 20 km langur og nokkrum km lengri með göngu á Kristínartinda. Ganga fram og til baka að Svartafossi frá tjaldstæðinu tekur hins vegar aðeins tæpar tvær klst og er því tilvalin fyrir barnafjölskyldur.

 

Share on facebook
Deila á Facebook