Græna gullið að Fjallabaki

Því miður vill gleymast hjá okkur Íslendingum hversu mikill fjársjóður er falinn í einstakri náttúru landins. Sennilega er hún stærsta auðlind  sem við eigum og mun skapa okkur ómældar tekjur í framtíðinni – en að því gefnu að við förum vel hana líkt og okkur hefur tekist með fiskimiðin okkar. Oft erum við félagarnir spurðir hver sé fallegasti staður á Íslandi – en erfitt er að gera upp á milli barnanna sinna. Efri Hveradalur í Kverkfjöllum, Lónsöræfi og Hornstrandir koma gjarnan upp í hugann, en sennilega er það þó Torfajökulssvæðið sunnan Landmannalauga sem á vinninginn. Þar er staður sem heitir því ófrumlega nafni Hryggur á milli gilja og býður upp á útsýni yfir Jökulgil með litapallíettu sem er einstök á heimsvísu. Mest er litadýrðin við svokallaðar Þrengingar en þar eru ljósbrúnn, grænn og rauður í aðalhlutverkum. Framhjá rennur Jökulgilsáin í makindum og magnar upp stemminguna. 

Afar fáir hafa komið á þennan „Útýnistað Íslands“, enda er ísköld Jökulsgilsáin farartálmi. En hún er flestum væð og gangan einhver sú stórkostlegasta á Íslandi. Lagt er af stað úr Landmannalaugum og gengið til suðaustur að frábæru útsýnisfjalli, Skalla, með útýsni yfir stóran hluta af miðhálendinu. Af Skalla er gengið niður ljósbrúnar eggjar Uppgönguhryggs í áttina að Hattveri. Vaðið er yfir Jökulgilsánna, sem oft nær hnjám, og þaðan upp ónefnd gil að Hrygg á milli gilja. Þar sést yfir Jökulgil, Sveinsgil og Torfajökul, en þetta er stærsta háhitasvæði landsins sem sést á gjósandi hverum út um allt. Skammt frá er sannkallað náttúrugull, Grænihryggur. Hann er gerður úr grænu líparíti og á stærð við fjölbýlishús. Framan við hann er ljósari hryggur sem kallast Kanilhryggur og rétt hjá er Lakkrísstígvélið, hraunmyndum sem minnir á súkkulaði með lakkrísbitum. Þrátt fyrir þessa stórkostlegu veislu er svæðið afar fáfarið og nánast engir göngustígir. 

Þarna rifjast upp að á sjöunda áratugnum voru uppi áform um að byggja þarna háhitavirkjun og framleiða raforku til stóriðju – sem hefði verið stórslys. Sem betur fer myndu slík áform varla ná í gegn í dag – en á sama tíma eru þau áminning um einstök svæði á landinu sem stendur til að virkja – áform sem munu án efa þykja jafn fáránleg í tímas rás. Nægir þar að nefna víðernin upp af Hvalá en líka Hagavatnsvirkun og virkjanir lengra inn á miðhálendinu. Það er óskynsamlegt að slátra mjólkurkúnni – og það fyrir erlenda stóriðju – enda náttúran þjóðargersemi og auðlind okkar allra.

Share on facebook
Deila á Facebook