Héðinsfjörður

Á milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar er töluvert nettari Héðinsfjörður. Hann var löngum á meðal einangruðustu fjarða á Íslandi, enda umkringja hann hrikaleg fjöll nema í norður þar sem hann mætir hafi. Þrátt fyrir mikil snjóþyngsli og erfiðar samgöngur bjuggu í byrjun 20. aldar 50 manns á fimm bæjum í Héðinsfirði og var Vík þeirra stærst. Aðeins hálfri öld síðar, eða 1951, fluttu síðustu ábúendurnir þaðan. Eftir standa rústir gömlu bæjanna í firði sem stöðugt laðar til sín fleiri ferðamenn. Skýringin á því eru tvenn göng sem voru opnuð 2010 og tengdu saman Ólafsfjörð og Siglufjörð í gegnum Héðinsfjörð. Þar með komst felufjörðurinn Héðinsfjörður út úr skápnum og varð skyndilega aðgengilegur bæði göngu- og skíðafólki. Þarna er líka vinsælt berjaland og í 2,5 km löngu og 1 km breiðu Héðinsfjarðarvatni við norðurenda fjarðarins er ágæt silungsveiði.

Fyrir tilkomu ganganna var oft farið sjóleiðina í Héð- insfjörð, enda þótt lending væri þar ekki auðveld. Þegar snjóa leysti opnuðust síðan gönguleiðir yfir til Ólafs- og Siglufjarðar, en þær eru bæði brattar og ná flestar um það bil 600 m hæð. Þessar sömu gönguleiðir má í dag nýta til útivistar en þær henta einnig ágætlega fyrir fjallaskíði. Ofan í firðinum eru ferðaskíði hins vegar ákjósanlegur ferðamáti að vetri til og hægt að ganga hann endilangan á nokkrum klukkustundum. Göngu- leiðir vestur í Siglufjörð eru aðallega tvær: annars vegar yfir Hestskarð í Skútudal og hins vegar aðeins lengri leið um Hólsskarð. Til Ólafsfjarðar eru þrjár gönguleiðir oftast gengnar: sú um Möðruvallaskál og Fossabrekkur ofan í Syðriárdal, um Víkurdal yfir Rauðuskörð og niður í Árdal, eða fremst í firðinum yfir Möðruvallaháls og niður í Skeggjabrekkudal. Fjöllin beggja vegna Héðinsfjarðar eru einstaklega tignarleg og með falleg nöfn eins og Vikurhyrna, Víkurbyrða, Pallahnjúkur, Fýluskálahnjúkur og Hesturinn. Árið 1947 flaug Daka- flugvél Flugfélags Íslands á hlíðar síðastnefnda fjallsins í þokuveðri. Tíndu 25 einstaklingar lífi og er þetta eitt stærsta flugslys Íslandssögunnar. Sprækt göngufólk getur gengið úr Héðinsfirði norðaustur í Hvanndali að Hvanndalabjargi. Sú ganga er krefjandi, tekur daginn og er ekki fyrir lofthrædda. Annar valkostur er að ganga eftir Héðinsfirði endilöngum og skoða rústir gömlu bæjanna, en eftir dalbotninum rennur snotur Fjarðará. Hugurinn hvarflar ósjálfrátt að harðri lífsbaráttu fólks sem þarna bjó við hrikalega einangrun, en um leið einstaka náttúrufegurð

Share on facebook
Deila á Facebook