í fótspor presta og perlusteins

Kaldidalur  liggur milli Langjökuls og Oks og nær 727 m hæð sem gerir hann að einum hæsta fjallveg landsins. Þetta var fjölfarin reiðvegur milli Þingvalla og Húsafells en í dag er þarna ágætur hálendisvegur sem er opinn yfir sumarmánuðina. Upp af Kaldadal er fjöldi spennandi gönguleiða, t.d. á Ok, Hádegisfjall syðra og nyrðra, Þórisjökul og inn í Þjófakróka þar sem talið er að Fjalla Eyvindur hafi haldið til. Sögufrægastur er þó Þórisdalur sem er dalþröng til vestur milli Þórisjökuls og þess hluta Langjökuls sem kallast Geitlandsjökull. Í Grettis sögu er sagt frá Gretti sterka þegar kemur þangað af jökli og finnur þar grasi vaxnar hlíðar og jarðhita. Síðar varð Þórisdalur alræmdur sem heimkynni vætta og útilegumanna. Vildu því fæstir heimsækja dalinn þar til árið 1664 að tveir prestar, Helgi Grímsson og Björn Stefánsson, lögðu upp frá Húsafelli í mikla frægðarför. Var tilgangurinn að kanna Þórisdal og leita þar útilegumanna. Sáu þeir enga slíka og nær engan gróður en við rætur litríks fjalls, sem síðar átti eftir að verða kennt við þá, fundust volgrur. Þetta er Prestahnúkur, 1220 m hátt fjall úr líparíti en í því er einnig vatnkennt afbriðgi þess, svokallaður perlusteinn. Hann finnst ekki á mörgum stöðum í heiminum og aðallega þarna og í Loðmundarfirði á Íslandi. 

Við upphitun þenst perlusteinn út eins og popp og hentar því vel til einangrunar í byggingariðnaði. Voru stofnuð nokkur félög til að vinna perlustein úr Prestahnúki á áttunda áratugnum en sem betur fer varð ekkert af þeim, enda fjallið og umhverfið allt mikil gersemi. Enn má þó sjá ummerki um námuvegi norðan megin í fjallinu sem roföflin keppast við að útmá. Það er engin merkt leið upp á Prestahnúk og nokkrar leiðir í boði. Flestir ganga upp hlíðarnar í vestri en forðast ber brekkurnar upp af gömlu námunum því þar eru brött  og ófær gil. Undirlagið er laust í sér og því gott að hafa göngustafi. Á leiðinni upp sjást sérlega fallegar og litríkar jarðmyndanir og efst er frábært útsýni yfir Þórisjökul og Þórisdal en líka Langjökul og Ok. Auðvelt er að halda af Prestahnúki áfram eftir hrygg á Geitlandsjökul (1400 m), sem reyndar er frekar tilbreytingarsnauð ganga eftir ávölum jökli. En í hlíðum Geitlandsjökuls eru spennandi skriðjöklar sem sjálfsagt er að kanna, en til þess þarf jöklabúnað.

Share on facebook
Deila á Facebook