Klakkur í KR litum

Klakkur er afskekkt 999 metra hátt fjall í suðvestanverðum Langjökli, nánar tiltekið við enda skriðjökulsins Vestari Hagafellsjökuls. Þetta er sérlega formfagur tindur og minnir á píramídana frægu í Gisa, sérstaklega þegar komið er að honum af Langjökli sem umlykur í allar áttir nema í suður. Það eru til mörg fjöll á Íslandi með sama nafni, m.a. í botni Kollafjarðar á Ströndum, en nafnið klakkur vísar til tré- eða járnpinna sem festir voru við klyfbera á hestum. Á klyfbera var hengdur varningur ýmiss konar til flutnings en fram á 20. öld voru klyfjahestar mikilvægasta flutningstæki hérlendis uns kerrur, bifreiðar og dráttarélar leistu þá af. Klyfberi var gerður úr tveimur fjölum sitt hvoru megin við hrygg hestins og voru þær festar með tréboga sem á voru 2-3 tré- eða járnpinnar sem kölluðust klakkar. Af þessu er orðatiltækið “að komast klakklaust yfir eitthvað” komið, þ.e. komast leiðina áfallalaust og festast ekki í klakkana. 

Flestir komast klakklaust upp og niður Klakk, enda þótt fjallið sé býsna bratt og laust í sér efst. Þess vegna er skynsamlegt að halda á fjallið á vorin eða að sumri til og nýta sér snjókafla í norðurhlíðum þess með jöklabúnaði. Suðurhlíðarnar  verða hins vegar mun fyrr snjólausar og séður frá hlið er Klakkur því í svart-hvítum KR-litum ena aðra minnir hann á Oreo kex. Klakkur er fáfarinn tindur, enda liggur fjallið utan alfaraleiða. Snemma sumars er hægt að komast að þvi af línuveginum norðan Skjaldbreið, t.d. norðan Þórólfsfells, og er þá gengið beint í suður um 15 km leið að fjallinu yfir sanda og hraun. 

Enn skemmtilegri leið er að ganga á ferðaskíðum frá skálanum Klaka við vestanverðan Langjökul, skammt frá Kaldadal, en þaðan er lagt í snjóbílaferðir í íshelli innar á jöklinum. Frá Klaka eru 12 km að Klakki með lítilli hækkun og er gengið framhjá Geitlandsjökli sem er eins konar útskot úr Langjökli. Efst er frábært útsýni og ber mest á nálægum Þórisjökli og Geitlandsjökli en í austur sést í Jarlhettur, Bláfell, Heklu, Tindfjalla- og Eyjafjallajökul og í suður blasa við Högnhöfði, Hlöðufell og Skjaldbreiður. Lokst sést inn í Þórisdal en þar var löngum talið að útilegumenn héldu til og forðuðust bændur í lengstu lög að heimsækja dalinn og smala.

Share on facebook
Deila á Facebook