Maurar í málverki

Eitt stórkostlegasta göngusvæði á Íslandi er inn af Lóni í Stafafellsfjöllum í svokölluðum Lónsöræfum. Litadýrðin er engu lík sem þakka má líparítfjöllum sem skorin eru sundur af giljum sem víða skarta hnífskörpum berggöngum sem helst minna á blaðsíður í bók. Litríkt landslagið er síðan rammað inn af snæhvítum Vatnajökli og vatnsmiklum jökulám sem renna í gegnum gróskumikinn birkiskóg. Þrátt fyrir þessa gríðarlegu náttúrufegurð eru ótrúlega margir Íslendingar aldrei hafa komið í Lónsöræfi og skýringin sennilega sú að ekki er auðvelt að komast þangað, ekki síst yfir óbrúaða Skyndidalsá, sem í vatnavöxtum getur verið varhugaverð. Því er skynsamlegt að semja við heimamenn um ferðina inn Lón, yfir Skyndidalsá og upp Kjarrdalsheiði að Illakambi. Þar endar vegurinn og aðeins hálftíma ganga að vinalegum Múlaskála í Nesi. Þar má einnig slá upp tjaldi og tilvalið að halda í dagsgöngur í Tröllakróka, að Víðibrekkuskeri og Kambahryggjum, Þilgili og Leiðartungum, eða sigrast á snúnum Sauðhamarstindi (1319 m).

Ekki má gleymast að einnig er hægt ganga að Illakambi úr Stafafelli í Lóni, áfram að Múlaskála og inn í Víðidal, gönguleið sem hefur fengið nafnið Austurstræti. Fyrsta daginn er gengið á sléttlendi meðfram Austurskógi og vatnsmikilli Jökulsá í Lóni, og síðan yfir hana á reisulegri göngubrú skammt frá Eskifell. Þaðan er hægt að fylgja veginum yfir Kjarrdalsheiði að Illakambi. Við mælum þó frekar með fáfarnari og erfiðari gönguleið, Kambaleið, sem liggur meðfram stórkostlegum gljúfrum Jökulsár. Leiðin er stikuð og liggur yfir óteljandi hryggi og gil. Stórkostlegast þessar gilja er Kambagil, en ofan þess er voldugur berggangur sem gaman er að feta sig varlega eftir. Þarna er einnig tilvalið að hvíla bakpokan og ganga út að brúnum Jökulsársgljúfurs. Handan þess blasir við svipmikill Sviptugnahnjúkur, sem sífellt breytir litum, allt eftir birtuskilyrðum.

Gangan ofan í sjálft Kambagil er ekki fyrir lofthrædda, enda fylgt göngustíg í líparítskriðu sem úr fjarlægð virðast lóðrétt, en reynist við nánari kynni halla aðeins. Þegar skriðan er að baki er gaman að fylgjast með göngufélögunum feta mjóan stíginn eins og maurar í olíumálverki. Þarna er ekki löng ganga að Illakambi en Kambaleið er einnig tilvalið að ganga í hina áttina, þ.e. frá honum niður að Eskifelli.

Share on facebook
Deila á Facebook