Rauðkúla

Á Snæfellsnesi eru tignarlegir tindar á hverju strái og mörg fjöll bera skemmtileg nöfn. Þótt ekki sé deilt um að konungurinn sé Snæfellsjökull, enda langhæstur, þá eru austar á nesinu fjöll sem ekki er síður gaman að ganga á eða skíða. Má þar nefna Helgrindur, Elliðatinda, Hólstind og síðast en ekki síst Ljósufjöll með tindana Bleik og Grána í broddi fylkingar. Síðarnefndu örnefnin hitta í mark, enda eru Ljósufjöll einkar litrík að sumri til og má þakka líparítinu í þeim. Vestan þeirra er ekki síður litríkur fjallstindur, sem oft vill falla í skugga Ljósufjalla, en á alla athygli skilið. Það er 915 metra há Rauðakúla sem á sumrin skartar fallegum dökkrauðum lit. Yfir vetrarmánuðina og fram eftir vori er hún hins vegar öll þakin snjó sem fer þessum píramídalaga fjalli einkar vel. Rauðakúla, líkt og reyndar flest íslensk fjöll, býður því upp á mismunandi klæðnað eftir árstíðum. Nafnið Rauðakúla er eftirminnilegt og minnir á snóker en í þeim vinsæla knattborðsleik eru einmitt 15 rauðar kúlur sem skotið er niður með sömu hvítu kúlunni.

Það er auðveldast að ganga á Rauðukúlu að sunnan­ verðu, enda bratti lítill nema síðasti spölurinn upp á tindinn sem er ávalur eins og á yfirborði kúlu. Leiðin er óstikuð og hægt að velja um nokkra staði til að hefja gönguna, til dæmis frá bænum Miklahrauni, en fyrst er sjálfsagt að fá leyfi landeigenda. Stefnt er í norður og liggur leiðin um fallegt hraun. Á hægri hönd blasir vold­ ugt Hafursfell við og þegar litið er um öxl suðurströnd Snæfellsness með endalausar ljósar sandfjörur. Haldið er upp á kúluna sjálfa að norðvestanverðu. Efst er frá­ bært útsýni, ekki síst í austurátt að tindaþyrpingu Ljósu­ fjalla. Þegar litið er í vestur er það Snæfellsjökull sem stelur athyglinni en framar sést líka í hæstu tinda Hel­ grinda, og enn nær Hólstind og Elliðatinda. Af hátindi Rauðukúlu getur sprækt göngufólk skottast í norðaustur á nálægan og ámóta háan Hreggnasa. Af tindi hans sést vel ágætlega yfir Breiðafjörð og norðanvert Snæfellsnes. Rauðakúla og Hreggnasi henta ágætlega fyrir fjallaskíði en á leiðinni niður er skynsamlegt að forðast árgljúfur vestur af gönguleiðinni, því þótt grunn séu geta leynst í þeim snjóhengjur. Gangan á Rauðukúlu er í kringum 20 kílómetrar og tekur daginn, ekki síst ef Hreggnasi er toppaður líka.

Share on facebook
Deila á Facebook