Skíðað niður Sérann

Það eru ekki margir kaupstaðir á Íslandi sem geta státað af jafn stórbrotnum fjallahring út um eldhúsgluggann og Siglufjörður, nyrst á Tröllaskaga. Fjallstopparnir eru óteljandi og hver öðrum hrikalegri, ekki síst þegar snjór þekur snarbrattar hlíðarnar langt fram á sumar. Beint inn af firðinum er Hólshyrna (753 m) mest áberandi, fjall sem Siglfirðingum er sérlega kært. Skammt frá eru fjöll með skemmtileg örnefni eins og Illviðrishnjúkur, Fýluskálahnjúkur, Dís og Móskógahnjúkur. Innar í þessum fjallaklasa leynist látlausara fjall, Prestshnjúkur, sem er 767 m hár. Segja munnmæli að nafngiftina megi rekja til þess að fyrir löngu síðan hafi prestur nokkur frá Ólafsfirði orðið þar úti. Þótt Prestshnjúkur sé ekki hæsti tindurinn á svæðinu þá er af honum gríðarlegt útsýni. Auk þess er tiltölulega auðvelt að komast upp á hátind hans, annað hvort gangandi eða á fjallaskíðum. 

Einföldust er leiðin eftir Skútudal en annar valkostur er að ganga upp úr Hólsdal, en eftir honum rennur Fjarðará. Í Skútudal má leggja bílum við gagnamunna Héðinsfjarðaganga og er haldið suður dalinn, austan megin Skútuár. Fljótlega blasa við mannvirki hitaveitu Siglfirðinga en aðeins ofar taka við fallegir fossar og árgljúfur. Gengið er neðarlega í fjallshlíð Fýluskálahnjúks og stefnan tekin á píramídalaga Móskógahnjúk. Áður en að komið er að honum er sveigt til hægri og blasa þá við hlíðar Prestshnjúks. Þarna eykst brattinn en þegar nálgast Hólsskarð er sveigt í austur að hátindi Prestshnjúks. Af ávölum tindinum er gríðarlegt útsýni, m.a. ofan í Héðinsfjörð en einnig áleiðis að Fljótum. Athyglinni stela þó hrikalegir fjallgarðar sitt hvoru megin Siglufjarðar og sést vel hversu fallegt bæjarstæði Siglufjaðarkaupstaðar er. Af tindi Presthnjúks er hægt að skíða niður brattar brekkur ofan í Fljót um Uxarskarð eða Héðinsfjörð en þessar leiðir eru aðeins fyrir vant fjallaskíðafólk. Einnig má snjóhryggi sem liggfja fráPrestshnjúk að Móskógahnjúki en þaðan má halda áfram út á Dísina eða skíða beint niður í Héðinsfjörð. 

Allt eru þetta stórkostlegar fjallaskíðabrekkur sem gefa þeim í Ölpunum og N-Ameríku lítið eftir. Flestir velja þó einfaldari leiðir niður af Prestshnjúki, t.d. stórkostlega brekku beint niður í Skútudal eða Hólsdal.  Gæta verður sín á snjóflóðum en í svona fjallaskíðaferðum verða allir að vera búnir ýli, snjóflóðastöng og skóflu – og þannig forða því að mæta örlögum prestsins forðum.

Share on facebook
Deila á Facebook