Steinrunninn landkönnuður

Tungnaáröræfi eru ósnortin en lítt gróin víðerni sem teygja sig upp eftir Tugnaá að vestanverðum Vatnajökuli. Þarna skiptast á svartir sandar og eldfjöll með hraunum sem sum eru aðeins 150 ára gömul. Landslagið minnir á tunglið en einfaldar útlínur svartklæddra fjallanna hafa löngum fangað athygli landslagsljósmyndara og málara. Á þessum slóðum eru frábærar gönguleiðir sem alltof fáir hafa spreytt sig á. Ein þeirra liggur að klettadranga sem heitir Dór og liggur í um 900 m hæð milli tveggja fjallabálka, Gjáfjalla og Bláfjalla. Úr fjarlægð líkist Dór ófrýnilegu trölli með bakpoka sem stefnir inn að jökli. Þegar nær er komið sést að þessi tæplega 20 metra hái klettur er býsna vinalegur og gaman að setjast í kjöltu hans. Skammt frá eru lágvaxnari afkæmi hans, klettar sem gaman er að príla upp á. Sagt er að Dór hafi verið jötunn sem varð að kletti í dagrenningu en á 19. öld var nafnið notað fyrir rekbor eða grannan járnstaut. Yngsta kynslóðin tengir þó nafnið við sjónvarpshetjuna heimsfrægu Dóru landkönnuð, sem sífellt kannar framandi svæði. Á Tungnaáröræfum má einmitt líkja Dór við landkönnuð sem horfir yfir þessu mögnuðu víðerni.

Það er auðvelt að komast inn í Tungnaárborna á fjórhjóladrifnum bílum. Ekið er framhjá Veiðivötnum og stefnan tekin á Jökulheima, skammt frá upptökum Tungnaár. Þar eru tveir skálar í eigu Jöklarannsóknarfélag Íslands sem félagið notar sem bækistöð fyrir jöklaferðir sínar. Hægt er að gista í skálunum ef haft er samband við félagið eða gista í tjaldi á vikurbornu undirlagi. Vestan við Jötunheima liggur vegslóði í norðaustur inn að Helgjargjá og Bláfjöllum en frá bílastæði sem er þar eru aðeins nokkurra km ganga að Dór. Þarna býðst frábært útsýni yfir Vatnajökul austanverðan með Kerlingunum tveimur (1339 m og 1207 m) Einnig sést vel til Langjökuls og Kerlingarfjalla og í norðri eru Hágöngur og Vonarskarð. Fyrir sprækt göngufólk er tilvaldið að ganga að Dór frá Jötunheimum og tekur slík ganga daginn. Er þá stekin stefna í norðvestur eftir svörtum söndum og tilvalið að halda eystri leið til baka. Leiðin er ekki stikuð og því skynsamlegt að hafa með GPS-tæki. Þetta er landkönnun eins og hún gerist best á einhverjum mögnuðustu og fáförnustu víðernum Íslands.

Share on facebook
Deila á Facebook