Tærnar sem hann Hrafna-Flóki kvaddi

Fáir fuglar koma jafn oft fyrir í íslenskum þjóðsögum og hrafninn, enda talinn spáfugl og oftar en ekki illur fyrirboði.  Allir kannast við biksvartan krumma, enda algengur staðfugl um allt land og langstærstur íslenskra spörfugla. Því kemur því ekki á óvart að nafn hans komi víða fyrir í íslenskum örnefnum. Eitt þeirra er fjallið Hrafnabjörg austan Þingvallavatns; klettum klæddur stapi sem gnæfir yfir umhverfinu og nær mest 763 m hæð. Þarna sést oft til hrafna, ekki síst á veturna. Geta þeir hópast saman í tugum og virðast leggja á ráðin. Kallast það hrafnaþing og hefur síðar verið yfirfært á mannamót. Nafngiftin er komin úr þjóðsögu sem segir að hrafnaþing eigi sér stað á haustin þar sem þeir skipi sér niður á bæi, tveir og tveir, í leit að einhverju ætilegu.

Ganga á Hrafnabjörg er þægileg, tekur 3-4 klst. og hentar vel fyrir alla aldurshópa. Auðveldast er að hefja gönguna við vörðu sem kallast Bragabót og má aka að henni af svokallaðri Gjábakkaleið, gamla veginum milli Þingvalla og Laugarvatns. Við fjallið Stóra Dímon er ekið 3 km í norður að bílastæði við vörðu sem kallast því skemmtilega nafni Bragabót. Þaðan er stikaðri leið fylgt yfir fallega mosavaxið Þjófahraun og eru gígar og hraunmyndanir á leiðinni.  Gangan að rótum fjallsins tekur um klst. en síðan  taka við brekkur suðaustanmegin og er stefnt norður á hæsta tindinn. Þar sést yfir Þingvallavatn en einnig Hengilsvæðið, Esju, Skálafell, Botnsúlur, Ármannsfell, Ok, Þórisjökul og Skjaldbreið. Í vestur sést í Kálfstinda og sunnar má á góðum degi sjást glitta í Vestannaeyjar. 

Á leiðinni heim er tilvalið að krækja norður og austur fyrir nálægan Þjófahnúk (684 m) og þaðan í suðvestur aftur að Bragabót. Á veturna og snemma vors er tilvalið að ganga þessa leið á ferðaskíðum og má þá hefja för við Stóra Dímon eða frá Þingvallavegi. Best er að skilja skíðn eftir við rætur Hrafnabjarga og skottast upp á hátindinn gangandi. Krummar skjóta oft upp kollinum og bjóða á hrafnaþing – stutt frá völlunum þar sem Alþingi var stofnað 930, kristnitakan átti sér stað í kringum árið 1000 og þar sem við lýstum yfir sjálfstæði 17. Júní 1944. Hrafnar geta tæpast verið slæmir forboðar svo nálægt heilagasta stað íslenskrar sögu. 

Share on facebook
Deila á Facebook