Þumalinn upp fyrir Miðfellstind

Einn af stórkostlegustu tindum í sunnanverðum Vatnajökli er 1420 m hár Miðfellstindur sem sést vel af þjóðveginum þegar ekið er yfir Skeiðarársand. Hann er að finna inn af Morsárdal, upp af Kjós, ekki langt frá Skaftafelli. Þetta er löng og krefjandi ganga en vel þess virði því útsýni af tindinum er frábært og gönguleiðin sérlega fjölbreytt. Ekki spillir fyrir að á leiðinni upp er gengið fram hjá Þumli (1279 m), tilkomumiklum blágrýstisdrangi sem löngum var talinn ókleifur, þar til þrír Vestmannaeyjingar klifu hann 1975 og þótti mikið afrek. Gangan á Miðfellstind hefst í Skaftafelli og er haldið inn Morsárdal, fallega ljósu en löngu dalverpi sem skartar bæði snarbröttum skriðjöklum og einum hávaxnasta birkiskógi á Íslandi, Bæjarstaðaskógi. Til austurs sést vel til Kristínartinda (1126 m) sem rísa upp af Austurheiði en mest ber á Morsárjökli sem steypist niður mörg hundruð metra hátt stál innst í Morsárdal skammt frá Miðfellsindi. Þarna er sagður vera hæsti foss á Íslandi, 228 m há og fengið hefur nafnið Morsárfoss. Við botn Morsárjökuls er síðan fallegt jökullón sem ber nafnið Mórsárlón. 

Þar sem ganga á Miðfellstind úr Skaftafelli eru rúmir 32 km fram og til baka erum margir sem kjósa að taka með göngutjald og gista í Kjós við rætur Vestra Meingils. Gengið er upp eftir gilinu sem skartar fallegum fossi og áfram inn í hrikalegan Hnútudal. Smám saman er komið upp að Þumli en síðasti spölurinn er brattur og mikilvægt að fara varlega. Frá Þumli er haldið norður inn á jökulinn og gengið upp á Miðfellstind að austan og aftanverðu. Rétt áður en stigið er fæti á hæsta tindinn er gengið yfir þerhníptan snjóhrygg sem ekki er fyrir lofthrædda. Af tindinum er frábært útsýni yfir Kjós, Morsárdal og  Skaftafellsfjöllin í heild sinni, en einnig yfir á nálægan Ragnarstind og  vestanverðan Öræfajökul sem skartar Hrútfellstindunum fjórum og hæsta tindi landins, Hvannadalshnjúk. Leiðin heim getur reynst löng og því velja sumir að gista í tjaldi í Meingildi áður en haldið er aftur suður í Skaftafell.


Share on facebook
Deila á Facebook