Virki Víga-Barða

Á milli Víðidals og Vesturhóps í Húnavatnssýlu er áberandi kennileiti sem kallast Borgarvirki. Þetta er klettaborg prýdd stuðlabergi sem talin er gosstapi frá eldgosi á hlýskeiði ísaldar. Efst í henni er allt að 6 metra djúp skeifulaga dæld sem opnast til austurs. Þar í skarðinu eru hleðslur sem sennilega eru frá land- námsöld en voru endurhlaðnar um miðja síðustu öld.

Virkið er friðað því inni í því eru leifar af brunni og rústir tveggja skála. Borgarvirki kemur fyrir í ýmsum sögum, ekki síst í Heiðarvíga sögu. Þar segir frá Víga-Barða Guðmundssyni sem bjó skammt frá í Ásmundarnesi og deildi löngum við Borgfirðinga. Þegar honum bárust fregnir af því að þeir síðar- nefndu vildu sækja að honum með her, safnaði hann mönnum sínum inn í Borgarvirki.

Borgfirðingar umkringdu virkið og ætluðu með því að svelta menn Barða til uppgjafar. Þegar matinn þraut brugðu virkisbúar á það ráð að kasta síðasta sláturkeppnum yfir vegginn. Þetta túlkuðu Borg- firðingar þannig að ekki skorti matföng hjá mönnum Barða, og sneru því aftur fýldir heim í Borgarfjörð. Aðrar sögur segja Finnboga ramma, sem síðar settist að í Trékyllisvík á Ströndum, hafa útbúið hleðslurnar í Borgarvirki þegar hann bjó á Stóru-Borg og átti í erjum við Vatnsdæli.

Ganga á Borgarvirki er þægileg og hentar öllum aldurshópum. Fylgt er göngustíg sunnan þess og honum fylgt inn fyrir virkisveggina. Efst er útýnisskífa en frá henni sést yfir Víðidalinn og að Vatnsdalsfjalli, en líka Vestur-Hóp og Þingeyrar. Þarna sést einnig yfir að bænum Vatnsenda en þar bjó hin glæsilega og hagyrta Skáld-Rósa (1795-1855) ásamt eiginmanni sínum Ólafi Ásmundssyni og vinnumanni, kvenna- manninum Natani Ketilssyni. Voru þau elskendur og talið að hann hafi í raun verið faðir nokkurra af fimm börnum hennar. Játaði hún síðar í réttarhöldum á sig hjúkskaparbrot sem bóndi hennar fyrirgaf henni. Natan sleit síðar sambandi sínu við Rósu, sem af því tilefni orti frægt og tregablandið kvæði þar sem eitt frægasta erindið er:

Augað mitt og augað þitt, ó þá fögru steina.
Mitt er þitt, og þitt er mitt, þú veist hvað ég meina.

Áður en haldið er heim er tilvalið að ganga umhverfis virkið og lifa sig inn í atburðina úr Heiðar- víga sögu, þótt ekki þurfi lengur að vara sig á fljúgandi sláturkeppum.

Share on facebook
Deila á Facebook