Eiríksjökuill er ekki aðeins eitt af fallegustu fjöllum landsins heldur jafnframt stærsti móbergsstapinn og hæsta fjall á vestanverðu Íslandi, 1675 m hátt. Helsta sérkenni hans er hvít jökulbungan sem blasir við úr innsveitum Borgarfjarðar og af Arnarvatnsheiði. Hún er 22 ferkílómetrar að stærð og renna frá henni nokkrir nettir skriðjöklar, flestir í norður. Sá stærsti er Klofajökull en skemmtilgasta nafnið ber bróðir hans Brækur.
Nafn Eiríksjökuls má rekja til útilegumanns sem hét Eiríkur. Segir í þjóðsögum að hann hafi ásamt félögum síðnum hafst við í Surtshelli skammt frá jöklinum og farið ránshendi um sveitir. Eltu bændur hann uppi og náðu að höggva af honum annan fótinn við ökkla. Komst hann eigi að síður undan á flótta og faldi sig í móbergsdranga í fjallinu vestanverðu sem heitir Eiríksgnípa. Færðist Eiríksnafnið yfir á jökulinn sjálfan í byrjun 18. en áður hafði heitið Baldjökull og þar áður Ballarjökull. Böllur var á fornmáli notað yfir eitthvað sem er ávalt eða kúlulaga, og á vel við um jökulhettuna, en baldinn þýðir óþægur og þver. Það nafn á einnig vel um Eiríksjökul sem getur verið snúinn viðureignar vegna erfiðra veðra og hversu torsótt leiðin að rótum hans er.
Oftast er fylgt vegaslóða norðan fjallsins Strúts sem liggur að Torfabæli með fallegu tjaldstæði við snotran læk. Fyrstu brekkurnar upp stall Eiríksjökuls eru brattar og lausar í sér en síðan minnkar brattinn og jökulurð tekur við og eftir það jökullinn sjálfur. Sumum finnst hann endalaus en samt eru aðeins 3 km að tindinum. Reyndar getur verið erfitt að sjá hvenær hæsta punktinum er náð á ávalri jökulbungunni. En með því að ganga í lítinn hring efst sést vel í allar áttir, m.a. yfir Langjökul, Þórisjökul, Ok og Húsafell. Á jöklinum geta ferða- eða fjallaskíði komið sér vel, sérstaklega í vorferðum, en flestir kjósa þó tvo jafn fljóta. Skynsamlegt er að halda sömu leið til baka að Torfabæli og fylgja síðan vegaslóðanum norður fyrir Strút. Þessi tofæri vegaslóði í Hallmundarhrauni er afar seinfarinn og eiginlegra fljótlegra að ganga hann en aka. Fjallahjól eru einnig sniðug eða gera eins og útilegumaðurinn Eiríkur þegar hann slapp lifandi og fæti styttri úr Surtshelli með því að beita fyrir sig handahlaupum.