Fimm stjörnu Fagrihóll

Með sérkennilegri náttúrufyrirbrigðum á Austfjörðum er Fagrihóll (273 m) upp af Borgarfirði eystri innanverðum, skammt frá rótum Svartfells og neðan Þrándarhryggs. Þarna hafa frost og önnur roföfl myndað risavaxna garða, allt að tveggja metra breiða, sem eru eins og teygðar þúfur. Sumir segja nátttúrufyrirbærið líkjast kartöflugörðum en okkur finnst þessir renningar minna á spínatpasta, nánar tiltekið tagliatelle. Í Fagrahól er sagt að búi huldufólk, bæði slæmt og gott. Frægust er sagan af góðri álfkonu sem þarna bjó og hélt verndarhendi yfir syni ekkju á nálægum bæ. Neyddist ekkjan til skilja son sinn eftir einan heima því hún varð að afla bjargar í bú með því að sækja sjó. Fagrihóll er réttnefni, ekki aðeins fyrir garðana furðulegu, heldur er umhverfið allt mikilfenglegt. Til austurs blasir við fjallgarður úr líparíti, oft kallaður Suðurfjöll, en sunnar er eitt helsta kennileiti Borgarfjarðar, hið litríka Staðarfell (621 m). Í norður blasir dökkleitara og hömrum girt Svartfellið við og til vesturs sér ofan í innanverðan Borgarfjörð og upp að Beinageitarfjalli. En það eru Dyrfjöllin sem stela athyglinni, enda er útsýni að 700 m breiðum Dyrunum og hæsta tindinum Súlu (1136 m), óvíða betra. 

Það er auðvelt að komast að Fagrahóli á fjórhjóladrifnum bíl og er ekið eftir Breiðavíkurslóð að Svartfelli. Vegurinn liggur síðan áfram yfirGagnheiði og ofan í Breiðuvík. Ofan á heiðinni er drangur sem kallast Maður en þar er frábært útsýni yfir Víkur.  Skemmtilegast er að ganga á Fagrahól í miðnætursól, helst fyrri hluta sumars þegar fífa umkringir óteljandi tjarnir á heiðinni. Frá Fagrahól og ofan af Þrándarhrygg bjóðast margar spennandi gönguleiðir, m.a. í kringum Svartfell, norður í Brúnavík eða yfir Gagnheiði í Breiðuvík. Meira krefjandi gönguleið liggur eftir Kjólsvíkurskarði niður í samnefnda vík en einnig má beygja út af þeirri leið til Breiðuvíkur. Loks má ganga á Svartfell (521 m) eða Suðurfjöll og halda af þeim áfram að Hvítserk og Skúmhetti. Einnig má sleppa göngum og slá upp tjaldi á heiðinni þar sem hægt er að dáðst að Dyrfjöllum úr stúkusæti – enda er Fagrihóll eins og Michellin veitingastaður með heimagerðu pasta og fimm stjörnu útsýni.

Share on facebook
Deila á Facebook