Talið er að geitur hafi borist til landsins með land- námsmönnum og stofninn síðan haldist einangraður, sem gerir hann einstakan. Síðustu aldir hefur íslenski geitastofninn lengst af verið í útrýmingarhættu en í dag telur hann rúmlega 1000 dýr. Á 9. og 10. öld voru geitur hins vegar haldnar á flestum bæjum, aðallega til mjólkur- og kjötframleiðslu, en skinnin voru einnig nýtt líkt og fíngerð ullin í einhverjum mæli. Því kemur aðeins á óvart að þeirra sé ekki oftar getið í fornum heimildum, líkt og annars bústofns. Skýringin gæti verið sú að litið var á geitur sem „kýr fátæka fólksins“, enda geta þær lifað á rýrara landi og verri heyjum. Gömul örnefni hérlendis benda þó til geitahalds og má þar nefna Kiðafell, Hafursfell og Geitafell. Reyndar eru Geitafell fjögur talsins á Íslandi og er eitt þeirra stutt frá höfuðborginni. Það er Geitafell vestan Þrengslavegar, 509 metra hár móbergsstapi sem myndaðist við gos undir ísaldarjöklinum. Ekki er hægt að segja að mosavaxið fjallið mynni á geit en það er hins vegar afar auðvelt uppgöngu og hentar því vel fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í fjallgöngum.
Auðveldast er að komast að Geitafelli frá Þrengsla- vegi við Sandfell. Þar eru hins vegar jarðvegsnámur sem ekki eru mikið fyrir augað. Hægt er að keyra að námunum og tekur þá við tæplega 3 km langur slóði að fjallinu. Annar kostur er að velja syðri leið frá Þrengslavegi að fjallinu. Geitafell er umkringt sléttum hraunbreiðum og auðvelt uppgöngu úr öllum áttum. Efst sést til sjávar við suðurströndina, í austri blasa við Kross- fjöll, í vestur Bláfjöll og Heiðin há og í norður Lambafell og Stóri-Meitill sitt hvoru megin Þrengsla. Hægt er að ganga aðra leið niður af fjallinu og í kringum það, en leiðin getur einnig hentað fyrir fjallahjól og á snjó er tilvalið að ganga að rótum fjallsins á ferðaskíðum. Ef ekið er heim í gegnum Árbæinn þá er þar áfengisbúðin Heiðrún. Nafnið er fengið úr Snorra-Eddu en þar segir frá geitinni Heiðrúnu sem bauð bardagamönnum Valhallar mjöð mikinn úr spenum sínum. Við getum ekki mælt með slíkum miði í lok göngunnar og minnum á heilræði úr Egilssögu þar sem stendur að „öl gerir Ölvan fölvan“.