Hrútur sem kærir sig kollóttan

Áður en eldgos hófst í Geldingadölum við Fagradalsfjall þann 19. mars 2021 var Stóri-Hrútur flestum lítt kunnur. Samt var hann hæsta fjallið (352 m) á sunnanverðum Reykjanesskaga og rómað útsýnisfjall. Fyrstu vikur gossins sást best yfir gosstöðvarnar að vestanverðu frá Fagradalsfjalli en þegar gígarnir tóku að opnast í austur var gengið þeim megin upp á hrygg sem gárungarnir voru fljótir að nefna Gónhól. Nýlega lokaðist sú gönguleið vegna hraunstreymis og við það fékk Stóri-Hrútur langþráða athygli. Sú athygli var verðskulduð, enda fjallið ekki aðeins það hæsta á svæðinu heldur jafnframt það tilkomumesta. Samt vantar Stóra-Hrút hornin en slíkt sauðfé kallast kollótt, sem er vel þekkt, en ekki staðalmynd hrútsins. Af ávölum Hrútnum sést vel í gíginn með glóandi hraunelfur í forgrunni sem rennur ofan í Merardali og Nátthaga. Gönguleiðin á Stóra-Hrút er ekki jafn greið en síst tilkomuminni en þær sem liggja í gegnum Nátthagakrika á Gónhól og Fagradalsfjall.

Aðallega eru tvær leiðir í boði, eftir Merardölum eða norður Nátthaga. Sú síðarnefnda er meira fyrir augað en breytist stöðugt vegna framrásar hraunins. Bílum er lagt skammt frá Ísólfsskála og síðan gengið eftir sléttum Nátthaga að hrauntungum sem stefna óðfluga að Suðurstrandarvegi. Til að forðast gasmengun er best að halda sig í fjallshlíðum og ekki leggja í gönguna séu vindáttir norðlægar. Í Nátthaga má virða fyrir sér hraunið í návígi og sjá hvernig það rennur niður hlíðarnar við Brattháls. Lagt er á brattann austan megin hrauntungunnar. Ofar minnkar hallinn og er hlíðum fylgt áfram að skarði við suðurenda Stóra-Hrúts. Þangað liggur einnig gönguleiðin austan úr Merardölum. Hún er greiðfærari en sú í Nátthaga og hentar því ágætlega fyrir fjallahjól. Úr skarðinu liggur greinilegur stígur upp á hátind Stóra-Hrúts. Þar blasir gígurinn við og hraunbreiðurnar í kring en einnig Reykjavík, Keilir, Trölla- dyngja og suðurströndin með Eldey. Á leiðinni heim er tilvalið að þræða ávalan Langahrygg milli Nátthaga og Merardala og virða fyrir sér hraunið í Nátthaga úr fjarlægð. Ganga á Stóra-Hrút er enn óstikuð og tekur hálfan dag báðar leiðir. Við mælum þó með góðri pásu á höfði þessa vinalega Hrúts, sem þrátt fyrir lætin virðist kæra sig kollóttan og lumar á útsýni sem ekki verður metið til fjár

Share on facebook
Deila á Facebook