Víknaslóðir eru sannkallað gósenland fyrir útivistarfólk enda býðst þar urmull spennandi gönguleiða sem þræða sig á milli fáfarinna víkna og litríkra líparítfjalla. Ein slík liggur upp að Svartfelli, 510 m háu hamrastáli sem liggur á milli Brúnavíkur og Borgarfjarðar eystri. Svartfell er eitt af mörgum tignarlegum fjöllum sem raða sér meðfram endilöngum Borgarfirði og mynda einhvern tignarlegasta fjallasal landsins. Mest áberandi eru Dyrfjöll en Svartfell er ekki síður spennandi og bæði sjást víða að. Jóhannes S. Kjarval heillaðist ungur af Svartfelli, sem helst minnir á kirkju eða kastala, og gerði fjallið ódauðlegt í málverkum sínum. Hann var aðeins fjögurra ára gamall þegar hann kom í Borgarfjörð til að dvelja hjá ættingjum í Geitavík og bjó þar fram til sextán ára aldurs. Líkt og allir sem koma á þessar slóðir heillaðist hann af stórbrotinni náttúru svæðisins, en síðar á ævinni átti hann eftir að heimsækja Borgarfjörð margsinnis til að mála. Kjarval var ekki aðeins stórkostlegur listamaður heldur mikill náttúrverndarmaður sem segja má að hafai verið á undan sinni samtíð. Hann opnaði Íslendingum nýja náttúrsýn með því að sýna fegurð landslags með nýjum hætti, m.a. með ýmiss konar kynjamyndum í hrauni sem annars var litið á sem farartálma og klettar voru sýndir sem heimkynni huldufólks.
Úr Borgarfirði virðist Svartfell ókleift en að austanverðu er ágæt gönguleið upp á tindinn. Efst er frábært útsýni yfir Borgafjörðinn eins og hann leggur sig en einnig að Dyrfjöllum og Brúnuvík. Efst í Svartfelli er gjá sem heitir Klukknagjá og er sagt að þar hafi heiðnir hafi komið fyrir klukkum sem áttu að vara við vofveiflegum tíðindum og ofsaveðrum. Síðar sló í brýnu milli kristinna og heiðingja og höfðu kristnir betur. Voru eftirlifandi heiðingjar látnir taka skírn en hinir grafnir skammt frá í svokölluðum Dysjarhvammi. Ganga í kringum Svartfell er frábær gönguleið sem tekur hálfan dag og er flestum fær. Haldið er upp úr Borgafirði eftir vegslóða sem liggur út í Brúnavík og þannig komist að norður- og austurhlíðum fjallsins. Síðan er veginum úr Breiðuvík fylgt aftur ofan í Borgarfjörð sunnan megin. Á leiðinni má sjá tröllslegar hraunmyndanir og kletta sem gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn en líka gróin dalverpi með lækjarsprænum og tjörnum. Þarna verða allir Kjarval í huganum.