Rúllettan í Reynisfjöru

Suðurströnd Íslands er prýdd endalausum söndum, sem aðallega er svartur basaltsandur sem jökulár hafa borið fram og Atlandshafið reynir síðan að skola í burtu. Áður voru árnar miklir farartálmar en í dag teljast þessar fallegu eyðimerkurstrendur til okkar helstu náttúrperlna. Einfaldast er að nálgast suðururströndina við Vík í Mýrdal. Tekur gangan niður að fjörunni aðeins nokkrar mínútur og blasa þá við Reynisdrangar en sá hæsti er 66 m hár. Drangana er enn skemmtilegra að skoða að vestanverðu og er þá ekið í gegnum Reynishverfi að Reynisfjöru. Sysðst í Reynisfjalli eru stuðlabergsmyndanir og í þeim leynast tilkomumiklir hellar, m.a. Hálsanefshellir. Skammt frá er Baðstofuhellir en þar bjó séra Jón Steingrímsson skömmu fyrir Móðuharðindin en í þeim fékk hann fékk viðurnefnið eldklerkur. Stundaði hann útræði á árabátum frá Reynisfjöru sem bæði var erfitt og hættulegt. Það gerði einnig Sveinn Pálsson læknir og náttúrufræðingur nokkrum árum síðar. Náði hann við kröpp kjör að fæða stóra fjölskyldu en starf hans sem fjórðungslæknir í Sunnlendingafjórðungi var illa launað. Samt var hann að sinna  fjórðungi landsmanna og vitjanir langar þar sem oft þurfti að fara yfir óbrúaðar ár.

 

Reynisfjara hefur ítrekað verið valin ein af fallegustu fjörum heims og því einn vinsælasti viðkomustaður erlendra ferðamanna á Íslandi. En það er auðvelt að flýja skarkalann með strandgöngu í átt að Dyrhólaey. Fram og til baka að útfallinu á Dyrhólaósi eru þetta 8 km en þegar fjarar út líkist það stríðri jökulá. Skammt frá er snotur klettur Arnardrangur sem líkt Dyrhólaey er heimkynni ógrynni sjófugla. Í norður glittir síðan í Mýrdalsjökul og Reynishverfi.

 

En Reynisfjara er ekki öll þar sem hún er séð og má líkja við rússneska rúllettu. Því veldur óútreiknanleg aldan og brim sem getur hrifsað fólk með sér á útsoginu. Við suðurströnd Íslands hafa mælst einhverjar hæstu öldur sem sögur fara af. Þannig er talið að í fárviðri veturinn 1990 hafi hæstu öldurnar náð 25 metrum sem jafnast á við átta hæða blokk. Auk þess er aðdjúpt þarna og öldurnar ná því hærra upp á land en ella. Hættulegast er þó hvað þær eru óútreiknanlegar og skyndilega getur stór alda borist á land. Þess vegna er best að snúa ekki baki í brimið eða ekki dáðst að því of lengi í gegnum myndavélinsu, enda hefur það kostað mannslíf. Því ekki viljum við að saga þessarar náttúruperlu verði svört eins og sandurinn sem gert hefur hana heimsfræga.

Share on facebook
Deila á Facebook