Fá landsvæði geta státað af öðru eins litríki og Stafafellsfjöll inn af Lóni, svæði sem á síðari tímum hefur fengið þá vinalegu nafngift Lónsöræfi. Þarna eru líparítfjöll sem gefa þeim á Torfajökulssvæðinu lítið eftir hvað litadýrð varðar en gróður og þá sérstaklega birkiskógar, eru meira áberandi, enda liggja Lónsöræfin lægra. Það krefst undirbúnings að ferðast um Lónsöræfi, enda þarf að komast yfir hina viðsjárverðu Skyndidalsá sem í rigningu getur vaxið eins og hendi sé veifað. Því er skynsamlegt að fá heimamenn til að ferja sig yfir hana og áfram upp á Illakamb í Lónsöræfum. En það má forsmekk að litaveislu Lónsöræfa á einfaldari hátt og þá í Lóni sem kalla má gáttina að hjarta Lónsöræfa. Í fyrstu lætur Lón ekki mikið yfir sér af þjóðveginum en þegar ekið er inn dalinn meðfram Jökulsá í Lóni opnast mikil töfraveröld, séstaklega austan og norðanmegin hennar en áður en hún var brúuð var hún hinn mesti farartálmi.
Á fólksbílum má aka í gegnum sumarstaðabyggð uns komið er að litlu tjaldstæði skammt frá Smiðjunesi en það liggur í einkar snotru umhverfi innan um líparíthryggi og birkiskóg. Einnig má gista á stærra tjaldstæði við Stafafell þar sem einnig er gistiheimili. Frá Grænuhlíð bjóðast ýmsar spennandi og þægilegar gönguleiðir, enda hækkun lítil og því tilvalin fyrir barnafjölskyldur. Ein slík liggur inn Hvannagil, þröngt líparítgil með fallegri á sem rennur eftir botni þess. Þarna eru bergmyndarnir í öllum kúnstarinnar litum, ekki ósvipaðar þeim sem sjást í Lónsöræfum. Einnig er skemmtilegt að ganga meðfram Jökulsá í Lóni inn að Austurskógi en þar eru myndarleg birkitré.
Hreindýrum bregður oft fyrir og þarna sést vel yfir dalbotninn sem er sundurskorinn af æðakerfi jökuláa og girtur tignarlegum snævi þöktum fjallstindum eins og Jökulgilstindum. Fyrir þá sem vilja lengri göngu má ganga að Eskifell og er þá farið yfir reisulega göngubrú á Jökulsá. Þaðan má halda áfram með allt á bakinu að Illakambi, sem tekur daginn og vel það, eða láta selflytja hluta af farangri þangað. Þetta er stórfengleg gönguleið inn að Múlaskála sem er einkar vel staðsettur í hjarta Lónsöræfa. Áður en haldið er heim úr Lóni er tilvalið að skoða Stafafellskirkju en hún var byggð 1866.