Skammt austan við Höfn í Hornafirði er Vestrahorn, eitt af af tignarlegustu fjöllum landsins og útvörður suðausturlands. Þetta er klasi tinda og er sá vestasti, Klifatindur (890 m), hæstur. Upp á hann liggur gönguleið sem ekki krefst klifurs líkt og þegar lagt er til atlögu við aðra tinda Vestrahorns. Þær klifurleiðir þykja með þeim bestu hérlendis, ekki síst snarbrattur austurveggur Kambshorns. Ástæðan er sú að Vestrahorn er gert úr gabbrói; hörðu djúpbergi sem ekki er jafn laust í sér eins og blágrýti og móberg sem flest íslensk fjöll eru gerð úr. Sérkennilegasti tindur Vestrahorns er sá austasti og heitir Brunnhorn (454 m). Það minnir á Batman, sérstaklega séð að norðanverðu úr Papafirði. Þarna eru ýmsar skemmtilegar gönguleiðir í boði og hægt að virða fyrir sér leðurblökumanninn í návígi. Bílum er lagt skammt frá bænum Syðra-Firði en vegna skugga frá fjöllum Vestra Horns er sólargangur þarna hvað stystur á bóndabæ á Íslandi. Orti Eiríkur Guðmundsson bóndi svo:
Lengi að þreyja í þessum skugga
þykir mörgum hart
Samt er á mínum sálarglugga
sæmilega bjart
Meðfram Papafirði er þægileg ganga út að Papósi en þar er frábært útsýni að litríkum fjöllunum upp af Papafirði og Lóni. Við Papós var helsti verslunarstaður sýslunnar um rösklega þrjátíu ára skeið og byggði reisluleg verslunarhús. Þegar ákveðið var að leggja verslunina niður voru húsin tekin niður og þeim fleytt á ævintýrlagan hátt sjóleiðina fyrir Horn og inn Hornafjörð. Enn má víða sjá tóftir gamalla húsa við Papós og þarna er mikið fuglalíf. Fyrir þá sem kjósa lengri göngu má ganga út fyrir Brimnestanga og í kringum Brunnhorn. Enn skemmtilegri gönguleið liggur í suður frá bílastæðinu við Syðra Horni og er þá komið upp í skarð sem heitir því skemmtilega nafni Kex. Efst í skarðinu blasir skyndilega Hornsvíkin við og Stokksnes. Haldið er niður brattar skriður úr Kexi eftir gamalli gönguleið sem ekki er fyrir lofthrædda. Frá Hornsvík er síðan gengið rangsælis út fyrir Hafnartanga og Brimnestanga, fyrir Brunnhornog framhjá Papósi uns komið er aftur að Syðra-Firði. Þetta er 14 km löng ganga og mikið fyrir augað, ekki síst við rætur Brunnhorns.