Kjölur er landsvæði á miðhálendi Íslands milli Langjökuls og Hofsjökuls. Yfir hann liggur 165 km langur Kjalvegur í tæplega 700 m hæð, sem fyrr á öldum var helsta samgönguleiðin milli Suður- og Norðurlands. Efst á Kili eru sandar og hraun í aðalhlutverki á milli lágreistra fjalla og áðurnefndra jökulskjalda. En þarna eru líka hærri fjöll eins og Kjalfell (1000) og risinn sjálfur, Hrútfell, sem nær 1410 m hæð. Ofan á því er 10 ferkílómetra ávalur og hratt dvínandi jökull sem heitir Regnbúðajökull eða Regnbogajökull. Það er reyndar líka skagfirska nafnið á Hrútfjalli, en er ekki er óalgengt að íslensk beri tvö nöfn. Hrútfell er stapi sem varð til við gos undir ísaldarjökli og er líkt og svo mörg íslensk fjöll nefnt eftir íslensku sauðkindinni. Norðanmegin steypast niður það fimm brattir skriðjöklar og sú hlið því tilkomumest.
Ganga á Hrútfell er frábær skemmtun en nokkuð krefjandi. Ekið er eftir torfærum slóða af Kjalvegi við Stóra-Skúta? í norðvestur inn að göngubrú yfir Fúlakvísl. Nokkrum km vestar er lítill en vinalegur skáli Ferðafélags Íslands í Þverbrekknamúla. Þar er tilvalið að gista eða slá upp tjaldi og virða fyrir sér Hrútfell úr fjarlægð. Frá skálanum er gengið beint í vestur að rótum fjallsins. Snemma vors má oft þræða á mannbroddum snjóskafla í suðausturhlíðum þess upp að brún Regnbúðajökuls. Hefðbundnari gönguleið liggur vestan lítils vatns beint suður af fjallinu. Þar eru brattar skriður þræddar upp að vörðu við brúnina og eru þær lausar í sér og gönguslóði lítt sjáanlegur. Af brúninni tekur við klst. aflíðandi ganga að hæsta punktinum. Þar sést vel yfir að Langjökli og Skriðufelli sem skagar út úr honum. Norðan þess sést dyngjan Sólkatla og beint í vestur klettadrangurinn Fjallkirkja. Í norður sér yfir Kjalhraun og Þjófadali, í austur Hofsjökul og aðeins sunnar Kerlingarfjöll og Bláfell. Best er að halda sömu leið til baka og láta bratta skriðjökla Regnbúðajökls eiga sig. Gangan fram og til baka frá Þverbrekknamúla eru rúmir 20 km og tekur daginn. Sprækt göngufólk getur hæglega tvinnað saman fjallgöngu á Hrútfell og nokkurra daga gönguferð um Kjalveg hinn forna. Er þá oftast gengið frá Hveravöllum niður á Hvítárnes með viðkomu í Þjófadölum og Þverbrekknamúla.