Ekki er óalgengt að fjöll heiti mismunandi nöfnum eftir því hvaðan er horft til þeirra. Þannig heitir eitt fallegasta fjall á Snæfellsnesi séð úr suðri Örninn, en Tröllkarlinn norðan úr Grundarfirði. Þarna er ekkert smáfygli á ferð heldur tröllvaxinn og illkleifur 778 metra hár tindur. Nánasta umhverfi fjallsins er einnig af dýrari gerðinni; tilkomumikilir tindar, klettaveggir og fjallshryggir. Því má segja að þessi örn hafi lent í sannkallaðri tröllaveislu en hann er tilkomumestur úr vestri og norðaustri. Fjallið er því eins og súkkulaðikexið í auglýsingunni, gott báðum megin. Það er einmitt þessi fjölbreytileiki sem gerir fjallið eftirminnilegt og gæti skýrt af hverju það ber tvö nöfn.
Auðveldast er að ganga á Örninn að sunnanverðu en einnig má komast að Tröllkarlinum að norðanverðu frá Grundarfirði. Torfærari leið liggur síðan að vestan frá Helgrindum. Best er að leggja bílum í Bláfelldarhrauni skammt frá Lýsuhóli. Fyrst er gengið á jafnsléttu meðfram Bláfelldará þar til komið er að fossum neðan Bláfelldarskarðs. Þarna er lagt á brattann uns komið er í dal vestan tindsins. Þar bíður brött snjóbrekka upp að klettahrygg sem kallast Arnarklif. Þarna blasir Arnardalur við en einnig Breiðafjörður í öllu sínu veldi og Kolgrafarfjörður. Þarna er ekki langt upp á hátind Arnarins en norðurhlíðin er snarbrött og öruggast að ganga hana á vorsnjó. Til þess þarf jöklabúnað og línur, en síðasti spölurinn er aðeins fyrir vant fjallafólk og ekki fyrir lofthrædda. Efst opnast útsýni yfir austanvert Snæfellsnes og Ljósufjöll en einnig sést vel yfir Grundarfjörð og Kirkjufell (463 m). Í vesturátt tróna Helgrindur (988 m) og sjálfur Snæfellsjökull (1446 m). Haldið er niður sömu leið að skarðinu við Arnarklif. Eftir það kemur til greina að ganga eða jafnvel skíða niður brattar norðurhlíðar Arnarins, eftir Arnardal í átt að Grundarfirði. Mikilvægt er að gæta varúðar í norðurhlíðum Tröllkarlsins því þar getur verið snjóflóðahætta. Í Grundarfirði má skilja eftir bíl og komast þannig aftur bílveginn yfir Vatnaleiðina. Rétt áður en komið er að Bláfelldarhrauni er tilvalið að skella sér í heitu laugina á Lýsuhóli en hún státar af steinefnaríku ölkelduvatni sem ku vera allra meina bót.