Íslenskt kameljón

Kameljón eru eðlur sem eru þekktar fyrir að breyta um lit. Þær kjósa hlýtt loftslag og halda sig aðallega í regnskógum. Á Íslandi eru því engin kameljón, en þó mætti kalla rjúpuna kameljón. Hún er staðfugl sem hefur verið ríkur hluti íslenskrar náttúru frá landnámi, en er auk þess vinsæll jólamatur. Rjúpan skiptir einmitt um lit eftir árstíðum og er hvít að vetri til en brúnleit með svörtum dílum að sumri. Hún finnst um allt land og er talið að stofnstærðin sé nú um 100.000 fuglar. Rjúpan hefur ávallt verið vinsæl hér á landi og því kemur ekki á óvart að a.m.k. 17 fjöll bera nafnið Rjúpnafell. Þeirra þekktast er sennilega Rjúpnafell í Þórsmörk, enda trónir keilulaga fjallið upp úr umhverfi sínu skammt frá Mýrdalsjökli. Á sumrin er það mosaklætt frá toppi til táar en en skartar einnig brúnum klettum sem minna á sumarklæði rjúpu. Þegar vetur nálgast er það síðan líkt og rjúpan fljótt að klæðast hvítri vetrarkápu, enda 819 m hátt. Það sést víða að en tindar þess eru tveir og úr vestri minna útlínur þessa á bókstafinn M.

            Ganga á Rjúpnafell er frábær skemmtun og má auðveldlega samtvinna Tindfjallahring, einni fallegustu göngu- og hlaupaleið landsins. Upplagt er að hefja gönguna við skála Ferðafélags Íslands í Langadal og er gengið eftir eyrum Krossár að Stóra-Enda. Þar er stikuð gönguleið upp krókóttan skógi vaxinn klettahrygg. Smám saman blasa við á vinstri hönd Tindfjöll, en þau heita sama nafni og fjöll mun vestar sem eru hluti Tindfjallajökuls. Þarna er tilvalið að sveigja til austurs út á Stangarháls þar býðst stórkostlegt útsýni yfir Þórsmörk alveg inn að Krossárjökli. Síðan er haldið norður Tindfjallasléttu þar til kemur að stíg sem liggur alla leið upp á Rjúpnafell. Síðasti hlutinn er nokkuð brattur en gönguleiðin greinileg. Efst sést Morinsheiði og Fimmvörðuháls en einnig sést hluti Laugavegarins, Tindfjallajökull og bróðir hans Eyjafjallajökull. Haldið er niður sömu leið á Tindfjallasléttu en nú áfram norðan Tindfjalla framhjá Tröllakirkju. Fylgt er krókóttum stígum í bröttum mosavöxnum hlíðum með djúp árgljúfur neðar. Síðan er tekur við Slyppugil og Hamraskógur uns komið er í Langadal þar sem ferðin hófst. Það tekur daginn að ganga á kameljónið oft bregður fljúgandi kameljónum fyrir á göngunni sem er samtals 20 km.

Share on facebook
Deila á Facebook