Baula í Borgarfirði er með fallegri fjöllum og kennileiti sem sést víða að, enda nær hún 934 m hæð. Fjallið er keilulaga og úr suðvestri líkist það píramída. Baula er gerð úr litríku líparíti sem fær gyllt yfirbragð þegar sólin skín á brattar hlíðar hennar. Nafnið baula kemur fyrir í ýmsum örnefnum og í samsettum orðum vísar nafnið oftast til kýr eða kálfs. Því má hæglega líkja Baulu við gullkálf. Í Ferðabók Eggerts og Bjarna sést að ljósgrítið í Baulu vakti þegar á 18. öld forvitni náttúruvísindamanna og á Jónas Hallgrímsson skáld að hafa sent sýnishorn úr því til Kaupmannahafnar. Þar rannsakaði jarðfræðingurinn Johann Georg Forchhammer grjótið og taldi nýja steintegund sem hann kallaði „Baulit“, , eða baulustein á íslensku. Síðar kom í ljós að um líparít (rhyolít) var að ræða, sem ekki er bundið við Baulu heldur finnst víða um land, t.d. á Torfasjökulssvæðinu, Kerlingarfjöllum, Lónsöræfum og á Víknaslóðum. Líparítið í Baulu er þó sérstakt því það er talið hafa myndast í tróðgosi og í því bregður fyrir innskotum sem skarta stuðlabergi og steinhellum sem Borgfirðingar notuðu áður til húsa- og legsteinagerðar.
Steinatöku við rætur fjallsins var hætt fyrir löngu en þeir sem leggja til atlögu við Baulu þurfa þó að klöngrast yfir stórgrýti í hlíðum hennar. Það getur verið snúið og sýna verður aðgát, sérstaklega þegar steinarnir verða flugháli í rigningu. Við slíkar aðstæður getur niðurferðin orðið að píslargangu yfir legsteina. Brattinn er líka töluverður og ganga á Baulu því aðeins fyrir vant fjallafólk. Oftast er gengið upp á tindinn að suðvestanverðu fylgt hrygg sem gengur út úr fjallinu. Önnur vinsæl gönguleið liggur upp suðausturhlíðar fjallsins en skriðurnar þar eru ekki síður lausar í sér. Hægt er að ganga á Baulu að vetri til en þá þarf jöklabúnað og mikilvægt að gæta sín á ís og snjóflóðum. Útsýnið efst er magnað og sést í Langjökul, Eiríksjökul, Ok og Þórisjökul en líka Hlöðufell, Skjaldbreið, Hafnarfjall og Tröllakirkju. Lítið sést þó af tjörn á tindinum sem gamlar sagnir segja að geymi óskastein á botninum. Á Jónsmessunótt ár hvert flýtur hann upp á yfirborðið og nái maður að grípa hann er hægt að fá óskir sínar uppfylltar. Ein slík verið að komast klakklaust niður Gullkálfinn mikilfenglega.