Konungur í klakaböndum

Dynjandi í Dynjandisá er sannkallaður fossakonungur Vestfjarða, enda einn þekktasti foss landsins og náttúruperla á heimsmælikvarða. Hann liggur afskekkt inn af Arnarfirði í hömrum girtum Dynjandivogi. Áður en Dýrafjarðargöng opnuðust síðastliðið haust varð að fara um Hrafnseyrarheiði til að komast að fossinum eða upp yfir Dynjandisheiði upp úr Vatnsfirði eða Arnarfirði. Þessar snjóþungu heiðar voru aðeins opnar yfir sumarið og fram á haust en lokuðust þegar fór að snjóa. Dynjandi fór því í felur yfir vetrarmánuðina og fáir sem gátu dáðst að honum í klakaböndum. Göngin hafa nú opnað fyrir vetrarferðir að þessum fossakonungi en einnig er Dynjandisheiði nú einnig rudd flesta daga vikunnar.

Að sjá Dynjandi í klakaböndum er engu líkt og nánast yfirþyrmandi. Hvítt ullarteppið, sem er helsta sérkenni hans að sumri til, er reyndar ekki eins áberandi og heldur ekki drunurnar sem hann dregur nafn sitt af. Hann er þó áfram 100 metra hár og stöllótt berglögin sem hann fellur fram af vel sjáanleg. Óteljandi ísilagðir fossar stela athyglinni en í þeim leynast abstrakt listaverk og undir þeim beljar blátært vatn.  Reyndar er um fossaröð að ræða og er efsti fossinn oft kallaður Fjallfoss, en aðrir telja það rangnefni og byggt á misskilningi. Hvað sem nafngiftinni líður þá er hann 30 metra breiður efst og 60 metar neðst. Neðar koma síðan Hundafoss, Strokkur, Göngumannafoss, Hrísvaðsfoss og loks Sjóarfoss.

Það er stutt gönguferð upp að efsta fossinum en sýna verður varúð því göngustígar eru oftar en ekki hálir. Frá bílastæðinu má einnig ganga upp á heiðina ofan fossins, og er þá haldið norðan Dynjandi meðfram Svíná. Þetta er frábær fjallaskíðaleið en ofar á heiðinni er einnig tilvalið að ferðast um á ferðaskíðum.

Innst í Dynjandivogi er undirlendi og var búið þarna fram til 1952. Sem betur fer var jörðin með fossunum friðuð sem náttúruvætti árið 1981, en áður hafði oftsinnis komið til tals að virkja Dynjandi eða veita vatni sem rennur í honum yfir í Mjólkárvirkjun. Nú er á teikniborðinu þjóðgarður á sunnanverðum Vestfjörðum sem mun teygja sig frá Vatnsfirði og upp á heiðarnar ofan Dynjanda. Slíkur þjóðgarður mun tvímælalaust styrkja Vestfirði enn frekar sem ferðamannasvæði og tryggja að dýrmætt vatnið í Dynjanda fái að renna óvirkjað út í konungsríki hans, Arnarfjörð.

Share on facebook
Deila á Facebook