Arnarfjörður er annar stærsti fjörður Vestfjarða á eftir Ísafjarðardjúpi, 38 km langur og víðast 5-10 km breiður. Þótt fljúgandi örnum bregði oft fyrir í fjöllum girtum firðinum segir í Landnámu að hann sé nefndur eftir landnámsmanni sem hét Örn. Arnarfjörður var löngum þéttbyggður en í dag er aðeins búið á nokkrum bæjum auk Bíldudals. Undirlendi í firðinum er lítið og því urðu bændur að stunda sjóróðra samhliða bústörfum. Fiskisæld var mikil en lending á árabátum víða erfið nema í víkum yst við sunnanverðan fjörðinn. Þar komu bændur sér því upp verbúðum og heita Verdalir. Til þeirra teljast Sandvík sem er næst Selárdal, næst kemur Miðdalur og vestar er Ystidalur.
Verdalir bjóða upp á hrikalegar fjallshlíðar með mannhæðarháum skriðum auk ljósra stranda og biksvarta kletta. Skammt frá ströndinni eru síðan tóftir gömlu verbúðanna en haganlega gerðar grjóthleðslurnar falla sérlega vel að landslaginu. Í þessum Versölum Vestfjarða var Jón Sigurðsson forseti vermaður en annars bjó hann á Hrafnseyri innar í Arnarfirði. Aðeins 13 ára gamall réð hann sig upp á hálfan hlut á fjóræringi og þótti standa sig vel. Fór hann því fram á fullan hlut, og fékk. Síðar átti Jón eftir að sýna sömu staðfestu í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á 19 öld og var fæðingardagur hans, 17. júní, gerður að þjóðhátíðardegi Íslendinga.
Til að komast í Verdali er ekinn 25 km langur Ketildalavegur frá Bíldudal út í Selárdal, Þar er tilvalið að hefja gönguna og er fylgt smalavegi sem liggur út í Verdali og þaðan áfram út á Kópanes. Ganga má út fyrir nesið uns komið er í Kópavík, sem líkt og Verdalir var mikilvæg verstöð. Úr Kópavík liggur leiðin aftur yfir í Ystadal og er gengið meðfram tignarlegum Miðmúla. Hringurinn í kringum Kóp tekur daginn frá Selárdal en hálfan dag ef aðeins er gengið út í Verdali. Á leiðinni heim er tilvalið að koma við í safni Samúles Jónssonar í Selárdal eða sjá býlið þar sem Gísli á Uppsölum bjó einn án nútímaþæginda þar til hann lést 1986.