Biskupinn í Kverkfjöllum

Í Kverkfjöllum eru náttúruperlur við hvert fótmál og fjölmargar spennandi gönguleiðir í boði. Flestir skoða íshellana og bregða sér jafnvel upp á Kverkjökul. Stórkostlegasta gönguleiðin liggur þó upp Löngufönn að háhitasvæðinu í Efri Hveradal sem liggur í 1700 m hæð. Er þá annað hvort gengið yfir Kverkjökul eða fyrir jökultunguna. Þetta er 10-12 klst. ferðalag og ekki gefið að svo löng og krefjandi jöklaganga henti öllum. Þá er hálfs dags ganga á Biskupsfell (1240 m) frábær valkostur en fram og til baka eru þetta 8 km og hækkunin 450 m. Biskupsfell trónir upp úr tindaröð Kverkfjallarana og minnir á dómkirkju innan um öll þessi litfögru fjöll sem urðu til við gos undir jökli. Það dregur nafn sitt af tilkomumiklum klettadrangi í norðurhlíðum þess sem líkist biskup í fullum skrúða með mítur á höfði, en það er ávalt höfuðft sem kardínálar, ábótar og biskupar bera við hátíðleg tækifæri. Ein af fjórum hjartalokum manns líkist einnig slíku höfuðfati og kallast því míturloka. 

Tilvalið er að hefja gönguna frá Sigurðarskála sem er besti hálendisskáli á Íslandi og liggur í 850 hæð. Að honum er 100 km jeppavegur frá Möðrudal sem liggur beint í suður yfir stórkostlegar sandauðnir og hraun en ekki þarf að fara yfir stórar ár á leiðinni. Upp Biskupsfell er stikuð leið frá skálanum og er gengið fram hjá Virkisfelli (1108 m) sem einnig er stórkostlegt úsýnisfjall. Þangað er gaman að koma síðla kvölds og fylgjast með miðnætursólinni sem er óvíða fallegri, enda Herðubreið, Trölladyngja, Dyngjufjöll og píramídalaga Uppyppingar sem sjá um leikmyndina. Biskupsfellið liggur aðeins austar og er leiðin stórgrýtt á köflum en samt greiðfær. Af tindinum er stórkostlegt útsýni yfir Kverkfjallarana og Krepputungu og óvíða betra útsýni yfir sjálfa Kverkina og bæði Austur- og Vesturfjöll Kverkfjalla sem skarta hæsta tindinum, Skarphéðinstindi (1920). Lengra í austur sést síðan til Snæfells (1833 m) sem er hæsta fjall utan jökla á Íslandi. Af hátindi Biskupsfells má halda aðeins lengra í norður og virða fyrir sér biskupinn í návígi. Þarna verður að fara varlega því bratt era ð Biskupnum. Gengin er sama leið til baka en áður en komið er að Virkisfelli má halda í norður og þannig ganga í kringum Virkisfell að Sigurðarskála.  

Share on facebook
Deila á Facebook