Búddahofin á Löðmundi

Löðmundur er með fallegri fjöllum á Íslandi og sést víða að en þó best af Fjallabaksleið nyrðri. Þetta er 1079 n hátt móbergsfjall sem ekki tókst að bræða sig í gegnum ísaldarjökulinn og náði því ekki að verða stapi. Það er vaxið gróðri frá rótum og uppúr og keilulaga mosagrænir tindarnir minna helst á tælensk Búddahof. Nafngift Löðmundar er ekki fyllilega útskýrð en löð var verkfæri sem áður fyrr var notað til að berja heitt járn og mund var áður notað yfir mannshönd. Því gæti nafngiftin vísað til kreppts hnefa sem á betur við  en sú löð sem vísað er til í  orðatiltækinu “að allt falli í ljúfa löð”. Löðmundur er án efa svipmesta fjallið í Friðlandinu að Fjallabaki og útsýnið af hæsta tindinum, Stróki, er frábært til allra átta. Auðveldast er að hefja gönguna við Landmannahelli en þangað er þægilegt að komast á fjórhjóladrifnum bílum af Dómadalsleið, jeppavegi sem liggur norðan Heklu og austur að Landmannalaugum. Í Landmannahelli er ágætt tjaldstæði en einnig er hægt að kaupa þar gistingu í litlum skálum. 

Algengast er að hefja gönguna á Löðmund vestan Landmannahellis eða austan hans við Löðmundarvatn. Fyrst er lagt til atlögu við brekkur Hellisfjalls en síðan tekur við sléttara landslag uns komið er að rótum fjallsins vestan megin. Þar liggur göngustígur upp brattar en grasi gróna hlíðar. Síðan tekur við sléttari stallur uns komið er að Búddahofunum efst en úr fjarlægð minna þau einnig á tindakórónu. Af hæstu tindunum er gríðarlegt útsýni til allra átta, en Hekla fangar athyglina, enda ekki langt undan. Einnig sést vel í Langjökul, Hofsjökul og suðvesturhorn Vatnajökuls en lengra í austur blasa við fjöllin umhverfis Landmannalaugar og í suðurátt Rauðfossafjöll og Krakatindur.  Ganga á Löðmund er ekki nema tæpir 8 km fram og til baka sem flestir ættu að ráða við á hálfum degi, einnig börn. Öruggast er að ganga sömu leið til baka en vant göngufólg getur haldið niður Egilsgil sem þó er mun torfærnari leið. Er þá komið niður austan megin Löðmundarvatns en blátært vatnið setur sterkan svip á umhverfið og bakkarnir ríkulega skreyttir fífu.


Share on facebook
Deila á Facebook