Demanturinn upp af Sigló

Fá svæði á Íslandi skarta öðrum eins fjallahring og Siglufjörður nyrst á Tröllaskaga. Þetta eru snarbrött og sérlega tignarleg fjöll sem mörg teygja sig vel yfir 800 m og eru snævi þakin stóran hluta ársins. Þessi fjöll eru mikil staðarprýði en áður en vegurinn yfir Siglufjarðarskarð var lagður fyrir bílaumferð til Siglufjarðar árið 1946 voru þau hinn mesti farartálmi. Með Strákagöngum 1967 opnaðist heilsársvegur og frá 2010 liggur greiðfærasta leiðin til Siglufjarðar í gegnum Héðinsfjarðargöng. Á Siglufirði morar allt í göngu- og fjallaskíðaleiðum og kostur hversu stutt er að uppgöngustöðunum. Ein þeirra skemmtilegustu liggur á tind sem heitir því sérstaka nafni Móskógahnjúkur (690 m). Hann sést víða að en frá Siglufirði minnir hann á fallega slípaðan demant eða píramída. 

Gangan hefst í Skútudal við mynni Héðinsfjarðarganga Siglufjarðarmegin. Fyrst er fylgt vegi meðfram heitavatnsbóli Siglfirðinga en síðan haldið áfram inn dalinn með ánna og gljúfur og foss í henni á hægri hönd. Stefnt er á norðurvegg „demantsinssem sífellt verður tilkomumeiri. Á vinstri hönd opnast smám saman útsýni upp á stórkostlega tinda eins og Dísina og snarbrattan Syðri-Fýluskálarhnjúk sem er ein mest krefjandi fjallaskíðabrekka í nágrenni Siglufjarðar. Smám saman er sveigt til hægri og eykst þá brattinn. Stefnt er á 767 m háan Presthnjúk fyrir botni dalsins en af honum er gríðarlegt útýni, m.a. yfir fjöllin umhverfis Héðinsfjö, en líka þau sem umlykja Fljótin og Siglufjörð. Presthnjúk er tiltölulega auðvelt að ná gangandi og fyrir sæmilega vant fjallaskíðafólk. Af tindinum er hægt að halda sömu leið til baka en vant skíðafólk getur haldið ofan í botn Héðinsfjarðar eða skíðað niður brattar norðurhlíðar Presthnjúks. Enn skemmtilegra er að þræða sig eftir hryggjum sem leiða frá Presthnjúki að Móskógahnjúki „bakdyramegin. Þetta er aðeins fyrir vant göngu- og skíðafólk og ekki fyrir lofthrædda. Einnig verður að gæta vel að snjóflóðum og hafa snjóflóðabúnað með í för. Tilfinningin að standa á tindi Móskógahnjúks er engu lík. Vel sést að Illviðrahnjúk í vestri og fallegu bæjarstæði Siglufjarðar, Hólshyrnu, fjöllum upp af Hestskarði og ofan í Héðinsfjörð. Brekkurnar niður í Skútudal eru langar en brattar og því mikilvægt að fara með gát. Einnig er hægt að skíða niður í Héðsinsfjörð og láta sækja sig þar við gangamunnann.

Share on facebook
Deila á Facebook