Dulin djásn Drangavíkur

Það er engu líkt að koma í Drangavík, lítinn fjörð norður á Ströndum mllii Eyvindarfjarðar og Drangaskarða. Drangavík er ekki í alfaraleið og aðeins verður komist þangað gangandi eða með bát. Mesta upplifunin fæst með því koma þangað gangandi úr Eyvindarfirði því þegar komið er út fyrir fjallgarðinn á Engjanei blasa sjálf Drangaskörðin við. Í Drangavík býðst besta útsýnið yfir þessa stórkostlegastu náttúrusmíð. En djásnin í Drangavík eru ekki aðeins bundin við Drangaskörð. Fjaran er stútfull af rekavið og hvönn sem eru heimkynni fugla og refa.  Þarna mæta bjargfuglar úr Drangaskörðum í ætisleit og oft sést til sela og jafnvel hvala. Aðeins utar eru litlar eyjar og sker þar sem æðarfugl heldur sig í skjóli frá rebba. Búið var í Drangavík þar til 1947 og má slá föstu að fá bæjarstæði á Íslandi hafi getað státað af öðru eins útsýni. Það er gaman að ráfa á milli rústa eyðibýlanna og ósjálfrátt leitar hugurinn að harðri lífsbaráttu fyrrum ábúenda. Því þarna eru vetur harðir og ekki lifði fólk á útsýninu. Auk þess gátu hvítabirnir átt til að mæta óboðnir í heimsókn og eru til frægar sögur af því þegar ábúendur í Drangavík áttu fótum sínum fjör að launa og komust í hús. 

En djásn Drangavíkur eru ekki bundin við ströndina og Drangaskörð. Uppi á heiðunum og inn af Drangavíkurdal eru blátær stöðuvötn sem orkufyrirtæki ásælast fyrir uppistöðulón Hvalárvirkjunar. Sem er illa ígrunduð hugmynd, rétt við dyragætt Drangavíkur – stað sem á engan sinn líka í heiminum. Reyndar er ekki síðasta sagan sögð af því hverjum vatnið á heiðunum er, því landeigendur í Drangavík, sem eru mótfallnir virkjun, hafa gert tilkall til Eyvindarfjarðarvatns samkvæmt landamerkjum frá 1890. Reynist það niðurstaða dómstóla eru forsendur Hvalárvirkjunar líklega brostnar. Frá bílastæðinu við Hvalárfossa er rúmlega 20 km ganga í Drangavík, en brjóta má upp gönguna með því að slá upp tjaldi í Eyvindarfirði. Tjaldstæðinu í Drangavík má þó ekki sleppa, en í stillu og kvöldsól lofum við fullkominni hugarró. Einnig er hægt að komast í Drangavík gangandi frá Reykjafirði Nyrðri eða frá bænum Dröngum norðan Drangaskarða. Fyrir þá sem eru tímabundnir er valkostur að sigla að djásnunum í Drangavík frá Norðurfirði með litlum bát, sem í stilltu veðri getur komið ferðalöngum á land í gúmmbát.

 

 

Share on facebook
Deila á Facebook