Fegurð undir fallöxini

Einhver stórkostlegasta náttúrperla á suðvesturhorni landsins er svæðið í kringum Hagavatn, suðaustur af Langjökli ekki langt frá Gullfossi. Þarna ágirnast orkufyrirtæki jökulvatn sem rennur úr hopandi Eystra Hagafellsjökli og vilja byggja uppistöðulón, vegi, veituskurð og rafmagnslínur. Slík framkvæmd myndi rústa þessum einstöku víðernum sem skarta einhverri tilkomumestu móbergstindakeðju á Íslandi, Jarlhettum. Þarna er ekki mikill gróður, en fjölbreytt litapallíetta Hettanna og eyðisandanna umhverfis þær, bæta fyrir gróðurleysið líkt og hvítur jökulinn og snotur blágræn jökulvötn í Jarlhettudal.  Umhverfi Hagavatns og þá sérstaklega Jarlhetturnar tuttugu, er einstakt á heimsvísu og minnir óneitanlega á Hringadróttinssögu. Margir Íslendingar hafa ekki áttað sig á þeim auðæfum sem fólgin eru í náttúru landsins og taka henni sem sjálfsögðum hlut. En þarna á máltækið glöggt er gest augað við því þarna hafa Hollywoodkvikmyndir verið teknar upp, t.d. stórmyndin Oblivion með Tom Cruise.

 

Hagavatn er í kringum 5 km2, er aðeins 60 m djúpt og liggur í tæplega 440 m hæð. Í botni þess er mikill aur og vatnið dökkgrátt af fíngerðum jökulleir. Nokkrum sinnum hefur hlaupið úr vatninu á sögulegum tíma og því fylgt flóð sunnar í Biskupstungum. Á tímabili voru uppi áform hjá Landgræðslu ríkisins að stífla vatnið við útfallið og þannig stækka vatnið þrefalt. Með þessu átti að stöðva áfok frá vatnsbökkum sem taldir voru ógna gróðri á afréttum Biskupstungna. Sem betur fer voru þessi áform blásin af þegar ljóst var að vatnsyfirborðið með virkjun mundi sveiflast og áfokið vaxa.

 

Umhverfis Hagavatn bjóðast óteljandi gönguleiðir en skammt frá vatninu er skáli Ferðafélags Íslands með ágætu tjaldstæði. Gaman er að ganga að Nýjafossi sem leysti af eldra útfall Hagavatns, Leynifoss, eftir mikið jökulhlaup 1939. Einstakt er að fylgjast með jökulvatninu göslast í gegnum þröngt úfallið en árið 2006 útbjó Ferðafélagið brú yfir það nokkru neðar. Enn skemmtilegri ganga liggur inn Jarlhettudal meðfram Jarlhettukvísl. Þarna sjást Jarlhetturnar í návígi en líka Eystri Hagafellsjökull og á milli þeirra sandar með jökulsorfnu grjóti. Þarna verður að gæta sín á aurbleytu en annars er hækkun á þessari gönguleið óveruleg og flestum fær. Landslagið er dulúðugt og lætur engan ósnortinn, jafnvel þótt ekki njóti sólar. Vonandi sleppur Hagavatn við fallöxi virkjanaframkvæma en vatnið er eins og höfuð sem á að vera áfast fallegum líkama Jarlhettna um aldur og ævi.

 

 

Share on facebook
Deila á Facebook