Felufoss í ríki fýla

Þórsmörk er tvímælalaust á meðal helstu náttúruadjásna Íslands, þar sem þéttir birkiskógar í sundurskornum giljum eru rammaðir inn af straumhörðum jökulám og mikilfenglegum jöklum. Landslagið einkennist af fjölbreytni og ríkulegan gróðurinn má þakka skjólinu sem jöklarnir veita. Á leiðinni inn í Þórsmörk er Stakkholtsgjá, náttúruperla sem margir fara á mis við og er auðvelt að skoða gangandi. Hún er kennd er við klettinn Stakk á Krossáraurum en í honum er skúti sem bændur nýttu sér áður sem skjól í haustgöngum. Gangan inn Stakkholtsgjá hefst við bílastæði við mynni gjárinnar. Fyrst er gengið í suður og síðan svegt í austur, samtals tveggja kílómetra leið inn að botni gjárinnar. Þessi magnaða náttúrusmíð er girt allt að 100 metra háum og þverhníptum mosavöxnum hamraveggjum en þegar horft er er upp er í átt að gljúfurbörmunum skjóta ýmsar kynjamyndir upp kollinum. Einnig sjást birkitré vaxa út frá syllum í klettastálinu og víða  sést í fýlshreiður. Þar hreiðra fýlar um sig en þeir eru með algengustu fuglum á Íslandi. Við áreiti getur múkinn, eins og fýll er oft kallaður, verið fúll á móti en nafnið vísar til illa lyktandi fýlaspýju sem þeir sprauta út um göt á goggnum og er bæði lýsi og matarleifar úr maga þeirra. Úr fjarlægð líkjast þeir mávum en þegar þeir flúgja um í Stakkholtsgjá minna þeir helst á eftirlitsflugvélar sem vakta konungsríki sitt. Oftast byggja fýlar hreiður nálægt sjó þar sem þeir sækja æti. En þarna, líkt og í Emstrum og við Þingveli, kjósa þeir að búa í úthverfi langt frá sjó – enda útsýnið einstakt.  

Fyrir flesta er ganga inn og aftur út Stakkholtsgjá auðveld. Fylgt er grýttum árfarvegi og stundum þarf að stikla steina til að komast yfir ánna. Því er góður skóbúnaður æskilegur. Innst skiptist Stakkholtsgjá síðan í tvennt og er stefnan tekin í austur (til vinstri) á þá minni. Þarna þrengist gjáin skyndilega og þarft að klöngrast yfir steina til að komast alveg að enda hennar. Þarna opnast töfraveröld en stórkostlegur foss fellur í nokkrum þrepum í gegnum mosavaxið op í gjánni. Ef ekki væri fyrir svalan úðann væri auðveldlega hægt að gleyma sér þarna svo klukkutímum skiptir.

Share on facebook
Deila á Facebook