Fjöllin fögru við sjóinn bláa

Ein dýrmætasta náttúrperla á hálendi Íslands er Langisjór og gróðursnautt nágrenni hans. Nafnið má rekja til lengdar vatnsins sem er 20 km en þótt það nái 75 m dýpt er mesta breidd aðeins um 2 km. Langasjó umlykja fallegir móbergshryggir sem mynduðust við gos undir ísaldarjöklum og ber þar hæst Tungnaárfjöll, Grænafjallgarð og ekki síst Fögrufjöll að austanverðu. Suður af vatninu er síðan Sveinstindur (1090 m), frábært útsýnisfjall sem kennt er við Svein Pálsson lækni og náttúrufræðing sem var þarna á ferð sumarið 1794.  Það var hins vegar annar merkur náttúrufræðingur, Þorvaldur Thoroddsen, sem gaf bæði Fögrufjöllum og Langasjó nafn árið 1889 en þá blasti Langisjór við  honum sem mórrautt jökullón og gekk skriðjökull niður í hann nyrst. Þegar Síðujökull tók að hörfa á síðustu öld breytti kvísl úr Skaftá um stefnu og og sveigði austur fyrir Fögrufjöll í stað þess að renna í Langasjó. Við þetta varð Langisjór fagurblár á litinn og um leið eitt tærasta stöðuvatn landsins.  Það er ótrúlegt en fram yfir síðustu aldamót ráðgerði Landsvirkjun að veita Skaftá í Langasjó og umbreyta vatninu í uppistöðulóni fyrir virkjanir á Tungnár- og Þjórsársvæðinu. Sem betur fer var því stórslysi afstýrt og frá 2011 er blátær Langisjór hluti Vatnajökulsþjóðgarðs.

  Ganga má umhverfis Langasjó á 2-3 dögum með allt á bakinu. Þá verður að vaða Útfallið, affall Langasjávar sem rennur í Skaftá. Að öðru leyti er gangan umhverfis Langasjó þægileg og er gengið um vogskorin og mosavaxin Fögrufjöll sem skaga víða fram í vatnið með tilkomumiklum klettahöfðum. Þetta er ósnortið hálendi eins og það gerist best og útsýnið yfir Langasjó ómótstæðilegt. Fyrir þá sem kjósa dgsgöngu má hæglega þræða Fögrufjöll fram og til baka löngum göngudegi, og jafnel bæta við Sveinstindi í lokin.

  Það er auðvelt að komast að Langasjó frá Fjallabaksleið nyrðri og tilvalið að gista í skála Útivistar við Sveinstind eða sunnar í Skælingum eða Hólaskjóli. Fiskur er í vatninu og þar er stunduð stangveiði en auk þess er Langisjór vinsæll fyrir kajaksiglingar. Er þá hægt að sigla umhverfis eyjuna Ást í Fagrafirði inn afFögrufjöllum, sem stendur  undir nafni eins og allt umhverfið.

 

Share on facebook
Deila á Facebook