Fossahnoss á Hornströndum

Það var mikið heillaspor þegar Hornstrandir voru gerð- ar að friðlandi árið 1975, ákvörðun sem allir Íslendingar geta verið stoltir af, enda náttúran einstök á heimsvísu og svæðið vinsælt til útivistar. Óvíða í Evrópu er hægt að komast í slíka nálægð við náttúruna enda ekkert sem rýfur kyrrðina nema fuglar og óvenjuspök tófa. Á þessu 581 ferkílómetra friðlandi kannast flestir við Hornvík, Hornbjarg og Kálfatinda en einnig eru Hæla- víkurbjarg, Hlöðuvík og Aðalvík vinsælir viðkomu-staðir göngufólks. Víkurnar og firðirnir á austanverðum Hornströndum eru þó ekki síður tilkomumiklar, eins og Smiðjuvík, Furufjörður og Þaralátursfjörður. Skammt frá lúrir nyrsti jökull Íslands, Drangajökull, en síðan er í víkunum og fjörðunum fjöldi fossa og steypast þeir tilkomumestu ofan í sjó. Einn slíkur verður á leið göngu- fólks í grösugu dalverpi sem heitir Drífandisdalur. Í honum er tær bergvatnsá, Drífandisdalsá, sem fellur í sjó fram af þverhníptri bjargbrún. Heitir fossinn Dríf- andi og þótt ekki teljist hann til frægustu fossa landsins þá er hann sannkallað hnossgæti, líkt og umhverfið allt. Ofar í dalnum eru síðan minni fossar með árbökkum sem skreyttir eru hvönn. Þeir sem lausir eru við loft- hræðslu geta fikrað sig út á steinklöpp Drífanda og fylgst með vatninu steypast 50 m fram af þverhnípinu. Fara verður varlega því klöppin getur verið sleip og í henni er sprunga! Síðan er haldið upp hlíðarnar vestan Smiðjuvíkurbjargs og þannig horft yfir Drífanda og samnefndan dal úr fjarlægð.

Einfaldast er að komast í Drífandisdal frá Hornbjargs- vita en þar rekur Ferðafélag Íslands vel búinn skála. Þar er boðið upp á svefnpokagistingu, en frábært tjaldstæði við snarbratta sjávarhamra freistar margra. Yfir hásum- arið má komast í vitann á báti frá Norðurfirði á Strönd- um, Ísafirði eða Bolungarvík. Annar valkostur er viku- löng ganga með allt á bakinu frá Ófeigsfirði, en einnig má hefja nokkurra daga göngu úr Jökulfjörðum, t.d. frá Hesteyri eða Veiðileysufirði. Gangan frá Hornbjargsvita að Drífanda tekur hins vegar aðeins hálfan dag báðar leiðir og hentar jafnt ungum sem öldnum. Fyrir þá sem vilja lengri göngu er tilvalið að kíkja einnig í Smiðjuvík en þar var búið fram til 1933. Næstu daga má síðan nýta í fleiri dagsgöngur frá Hornbjargsvita, t.d. yfir í Hornvík, upp á Kálfatinda og út að Hælavíkurbjargi.

Share on facebook
Deila á Facebook