Skjaldbreiður

Á Íslandi er fjöldi dyngja sem myndast hafa í hægfara flæðigosum þar sem lítt sprengivirk og þunnfljótandi 1000-1200 gráðu heit kvika streymir upp um miðlægt gosop. Dyngjur eru fagurlega formaðar og líkjast skildi á hvolfi þar sem halli jarðlaga er oftast í kringum 6-8 gráður. Stærst íslenskra dyngja er Trölladyngja í Ódáðahrauni en Skjaldbreiður (1060 m) upp af Þingvallavatni er lítið minni. Báðir þessir eldskildir eru hálfgerð peð í samanburði við stærstu dyngjur jarðar á Hawaiieyju sem teygja sig allt í allt að 4 km yfir sjávarmál, eða Ólympusfjall á Mars sem er stærsta dyngja og eldfjall sólkerfis okkar, 25 km há og 600 km breið.

 

Skjaldbreiður er talinn um 9000 ára gamall og myndaðist sennilega í einu gosi sem gæti hafa staðið í 50-100 ár. Hann hefur veitt óteljandi listmálurum okkar og skáldum innblástur, enda staðsetningin norðvestur af Þingvallavatni einstök. Þegar skáldið og náttúrufræðingurinn Jónas Hallgrímsson var þarna á ferð 1841 orti hann kvæðið Fjallið Skjaldbreið, sem líkt og málverk Ásgríms Jónssonar og Kjarvals hafa gert fjallið ódauðlegt.

Fanna skautar faldi háum,
fjallið, allra hæða val;
hrauna veitir bárum bláum
breiðan fram um heiðardal.
Löngu hefur Logi reiður
lokið steypu þessa við.
Ógna skjöldur bungubreiður
ber með sóma rjettnefnið.

Ganga á Skjaldbreið telst ekki tæknilega erfið en endalausar hraunbreiður geta tekið á, ekki síst andlega. Þess vegna er tilvalið að sigra þennan bungubreiða skjöld í vorsnjó á ferðaskíðum. Algengasta gönguleiðin er um 10 km báðar leiðir og liggur beint í suður frá gíghólnum Hrauk (605 m), en komast má að honum af Skjaldbreiðarvegi (F338), línuvegi sem tengir Uxahryggjarleið og Haukadalsheiði. Vetur og vor er línuvegurinn lokaður og þá má komast á snjó við upphaf línuvegarins vestan megin. Efst á Skjaldbreið er gaman að berja 300 metra breiðan gíginn augum en stórkostlegast er útsýnið yfir að Þórisjökli, Hlöðufelli, Oki, Botnsúlum og Þingvallavatni. Þarna geta allir tekið undir með Jónasi Hallgrímssyni sem í áðurnefndu kvæði kallaði Skjaldbreið með réttu „allra hæða val“.

Share on facebook
Deila á Facebook