Glettilega falleg Kjólsvík

Á Víknaslóðum er aragrúi skemmtilegra örnefna sem lífga enn frekar upp á stórkostlega náttúruna. Má þar nefna Kjólsvík en hún liggur milli fjallanna Glettings (554 m) og Grenmós norðan Breiðuvíkur. Í Kjólsvík er undirlendi lítið en skriðuhlaup úr snarbröttum hlíðum Glettings setja svip sinn á landslagið. Óvenjulegt nafn sitt dregur víkin af kletti í hlíðum Glettings sem kallast Kjóll, orð sem í fornu máli var notað yfir bátskjöl. Engu að síður var útræði aldrei stundað frá klettóttri Kjólsvík og brugðu bændur sér því yfir Gletting út á Glettingsnes til að sækja þar sjó. Í Víkinni var hins vegar stundaður landbúnaður alveg fram til 1938, aðallega sauðfjárrækt, oft við afar erfiðar aðstæður. Má sjá rústir eyðibýlisins skammt frá ströndinni. Þarna gerðust válegir atburðir árið 1705 sem leiddu til þess að þremur árum síðar var vinnukonunni Hallfríði Magnúsdóttur drekkt í Drekkingarhyl á Þingvöllum. Átti hún að hafa sængað með bæði Ólafi Kolbeinssyni vinnumanni á bænum og bóndanum Sigmundi Vigfússyni sem var giftur þriggja barna faðir. Í vettvangskönnun sýslumanns til Kjóls- víkur sá hann að úr brjóstum Hallfríðar lak mjólk, en barnið fannst síðan eftir leit niðurgrafið skammt frá bænum. Sagði Hallfríður Ólaf hafa borið út barnið. Fyrir þetta var Ólafur hálshöggvinn en Sigmundur aðeins dæmdur til húðstrýkingar fyrir hórdómsbrot. Þóttidauðadómur Hallfríðar og Ólafs endurspegla bága réttarstöðu vinnuhjúa á þessum tíma.

Óhætt er að mæla með heimsókn í Kjólsvík en þangað er aðeins hægt að komast gangandi eða ríðandi. Fyrst þarf að komast upp á Kjólsvíkurvarp og er einfaldast að komast þangað sunnan úr Breiðuvík, þar sem er vistlegur skáli Ferðafélags Fljótsdalshéraðs og tjaldstæði. Annar valkostur er að hefja gönguna í Borgarfirði og fylgja Þrándarhrygg að Kjólsvíkurvarpi. Þaðan er fylgt stórkostlegri gönguleið meðfram klettóttum hlíðum Glettings, eftir svokölluðum Kjólsvíkurmelum, yfir Hall og niður Háuhlaup að gamla bæjarstæðinu. Þarna leitar hugurinn ósjálfrátt að lífsbaráttu þeirra sem þarna náður að draga fram lífið á einhverjum afskekktasta stað á Íslandi. Í norður glottir Glettingur og erfitt að sjá fyrir sér hvernig hægt var klöngrast yfir hann til að sækja sér björg í bú. Á leiðinni til baka er fylgt sömu leið, annað hvort aftur til Breiðavíkur, Þrándarhryggeða halda yfir í Brúnavík og þaðan í Borgarfjörð.

Share on facebook
Deila á Facebook