Vestfirðir státa af óteljandi fallegum fjörðum og bera tveir þeirra nafnið Vatnfjörður; annar inn af Ísafjarðardjúpi en hinn við norðanverðan Breiðafjörð. Sá síðarnefndi var friðaður árið 1975 vegna einstakrar náttúrfegurðar, ríkulegs gróðurs og dýralífs. Þéttur birkiskógur með náttúrulegum reynivið einkennir hluta af 209 ferkílómetra stóru friðlandinu, en talið er að i því haldi til tuttugu fuglategundir, m.a. einkennisfuglinn Lómur en líka örn og fálki. Stríðar bergvatnsár með fjölda fossa kóróna síðan fallegt landslagið. Má þar nefna Penná sem rennur ofan í fjörðin ofan af Dynjandiheiði en líka Vatnsdalsá fyrir honum miðjum. Loks er Þingamannaá sem rennur ofan úr Þingamanndal en í henni er fossaröð sem kom fyrir í sjónvarpsþáttunum um Nonna og Manna frá 1990. Fossarnir í Vatnfirði búa ekki aðeins yfir einstakri fegurð heldur býr í þeim orka sem gírug raforkufyrirtæki ásælast nú sem aldrei fyrr. Virðast þau engu skeyta að árnar og fossarnir í Vatnsfirði eru friðaðir, auk þess sem friðlandið er verður hjartað í Þjóðgarði á Vestfjörðum sem átti að opna sl. sumar, og verður lyftistöng fyrir Vestfirði alla. Ekki má heldur gleyma sögulegu gildi svæðsins en varla var það tilviljun að í Vatnsfirði reyndi Hrafna-Flóki fyrsta landnám sem sögur fara af á Íslandi. Þar gaf einnig landinu okkar nafn, líkt og segir í Landnámu: „Þá gekk Flóki upp á fjall eitt hátt ok sá norðr yfir fjöllin fjörð fullan af haf-ísum, því kölluðu þeir landit Ísland, sem það hefur síðan heitit.” Þjóðhátíðarárið 1974 héldu Vestfirðingar þarna stærstu útisamkomu sem haldin hefur verið á Vest-fjörðum. Vatnsfjörður er því ekki hvaða fjörður sem er og vatnið og fossarnir í honum heilagir. Það er auðvelt að komast í Vatnfjörð akandi, en margir kjósa að sigla inn fjörðinn með flóabátnum Baldri frá Stykkishólmi, jafnvel með viðkomu í Flatey á Breiðafirði. Við Flókalund er uppýsingamiðtöð og ágætt tjaldstæði. Þarna bjóðast skemmtilegar gönguleiðir í allar áttir, t.d. meðfram Vatnsdalsvatni og Vatnsdalsá, eða stórkostlegum gljúfrum Pennár. Styttri ganga, sem hentar vel barnafjölskyldum, liggur að fossunum í Þing-mannaá eða að surtarbrandsnámum í Surtarbrandsgili. Einnig er gaman að spreyta sig á Lómtindi þar Hrafna-Flóki á að hafa gefið Íslandi nafn, en af tindinum er einstakt útsýni yfir sunnanverða Vestfirði. Skammt frá eru fjórar stöllóttar og 700 metra háar Hornatær með enn betra útsýni yfir Vatnsfjörð sem vonandi fær að halda heilögu vatni sínu óvirkjuðu um ókomna tíð.