Eitt helsta einkenni íslenskra fjalla er hversu fjölbreytt þau eru og það bæði við um lögun þeirra og liti. Sum eru frábrugðnari en önnur og litirnar stinga skemmtilega í stúf við umhverfið. Þessi fjöll eru mikil prýði og auka á fjölbreytileikann í náttúrunni – sem er jákvætt líkt og í samfélagi okkar þar sem einstaklingar eru ekki allir eins. “Hinsegin fjöll” eru oftar en ekki gerð úr líparíti (rhyolíti) en það er súrt gosberg sem getur skartað ýmsum litum eins og grænu og rauðu þótt ljósbrúnn sé algengastur. Liturinn ræðst af ýmsu, m.a. efnasamsetningu gosefnna, hitastigi og hraða kólnunar.
Líparítfjöll má finna víða um land en flest þeirra eru á Víknaslóðum, í Kerlingarfjöllum, Lónsöræfum og sérstaklega á Torfajökulsvæðinu. Þar er einmitt eitt litríkasta og fallegasta fjall landsins, Brennisteinsalda (881 m), skammt fra´Landmannlaugum og einn helsti konfektmolinn við Laugaveginn. Hún skartar öllum regnbogans litum og litapallíettan er breytileg eftir birtuskilyrðum. Litskrúðugar hlíðarnar mynda skemmtilega andstæðu við Laugahraunið sem umlykur hluta fjallsins, biksvart hraun en víða mosavaxið. Árið 1480 rann Laugahraun úr gígum í jaðri Öldunnar en í því má víða finna glerkennt ókristallað líparít sem kallast hrafntinna og er oft notað í skartgripi. Í hlíðum Brennisteinsöldu er svartur drangur sem líkist steingerðum þurs og litríkt hverasvæði með gufuhverum sem sýna kraftinn í iðrum jarðar með tilheyrandi brennissteinslykt.
Það er auðvelt að gagna á Brennisteinsöldu, enda hækkunin aðeins um 200 metrar. Ferðin hefst við skála Ferðafélags Íslands í Landmannalaugum og tekur tæpa klst. að ganga að fjallinu og er fylgt fyrsta hluta Laugavegarins. Sunnanvert á fjallinu er hryggur sem er auðveldasta leiðin á tindinn, en þar býðsta frábært útsýni yfir undraveröld Landmannalauga og nágrennis en einnig sést vel inn á hálendið í norðri. Hæsta fjallið í nágrenninu, Bláhnjúkur (945 m), er skammt undan og tilvalið fyrir fyrir sprækt göngufólk að landa þeim tindi einnig í sömu ferð. Er þá fylgt merktri gönguleið þvert yfir Laugahraun að Grænagili en þaðan liggur göngustígur “bakdyramegin” upp á Bláhnjúk. Í lok göngudags bíða síðan heitar Landmannalaugar.