Öræfajökull er stærsta eldfjall landsins sem státar af flestum fjallarisum landsins. Þeir raða sér eftir börmum öskjunnar sem nær allt að 6 km breidd og er fyllt 550 m þykkum ís sem bíður ískaldur eftir að Öræfajökull ræski sig aftur. Hvanndalshnjúkur er hæstur (2110 m), síðan koma Sveinstindur (2044 m) og Snæbreið (2036 m) en aðeins lægri en ekki síður tilkomumikill er kúlu- laga Vestari Hnappur. Hnappur kemur víða fyrir í tinda- nöfnum hérlendis, sérstaklega þegar í hlut eiga fjöll sem eru kollótt og kúlulaga, en orðið kemur víða fyrir íslensku máli, t.d. var þjóhnappur í fornu máli notað fyrir rasskinn.
Vestari Hnappur liggur í sunnanverðri öskjunni, upp af bænum Hnappavöllum skammt frá Fagurhóls- mýri. Suður af bænum er helsta klifursvæði landsins en nokkrar af rúmlega 100 klifurleiðum þar þykja með þeim erfiðustu á Norðurlöndum og hafa því freistað margra. Miklu færri hafa freistast til að stíga fætir á Vestra Hnapp enda þótt hann nái 1.849 metra hæð yfir sjávarmáli og sé tvímælalaust á meðal tignarlegustu tinda landsins. Aðeins austar er bróðir hans Eystri Hnappur (1758 m) en hann er enn fáfarnari vegna risastórra jökulsprungna sem umlykja hann. Vestari Hnapp má hins vegar klífa úr norðvestri en gangan krefst reynslu í notkun jöklabúnaðar, trygginga og klifurlínu. Frá Hnappavöllum má aka mjög torfarinn jeppaslóða upp að snjó í 700-800 m hæð. Svokallaðri Hnappaleið er síðan fylgt norðvestur í átt að Hnjúknum, en þegar komið er upp á öskjubrúnina er sveigt til hægri að Vestari Hnapp. Þar bíður brattur snjóhryggur sem fylgt er upp á hátindinn. Gangan tekur 10-12 klst. fram og til baka og telst krefjandi. Útsýnið efst er magnað og sést vel í áðurnefnda fjallarisa en líka Rótarfjallshnjúk (1848 m), Efri Dyrhamar (1917 m), Skeiðarársand og Ing- ólfshöfða. Þarna er auðvelt að gleyma stað og stund og festast í hnappheldu Vestra Hnapps, Orðatiltækið að ganga í hnapphelduna þýðir að gifta sig og á rætur sínar að rekja til tóbands sem notað var til að binda fram- fætur strokgjarnra hesta. Ólíklegt er að einhvern langi til að strjúka af Vestari Hnappi, enda ástin ævilöng og skilyrðislaus fyrir þá sem ná tindi hans.