Hvannárgil

Norður af Fimmvörðuhálsi og skammt frá Eyjafjalla- jökli er Goðaland sem teygir sig norður að Krossá, en norðan hennar er Þórsmörk. Einkennandi fyrir bæði Goðaland og Þórsmörk eru birkivaxnar hlíðar og gil sem jafnframt skarta lágvöxnu kjarri og mosa. Eftir Kötlugosið 1918 var hætt að beita sauðfé í þessum skógum sem við það náðu vopnum sínum. Sama á við um annan gróður og plöntur sem líkt og birkið þrífast vel í skjóli þriggja jökla sem umlykja Goðaland og Þórs- mörk. Þar á meðal er ætihvönn (Angelica archangelica) en frá landnámi hefur hún verið vinsæl lækningajurt og jafnframt nýtt til matar. Hin síðari ár hefur æti- hvönn aðallega verið nýtt sem krydd í mat og áfengi líkt og Hvannarótarbrennivín ber vitni um. Áður fyrr var hvönn aðallega notuð við meltingartruflunum en einnig til að losa slím í öndunarvegi. Síðari tíma rann- sóknir hafa síðan sýnt að í henni eru sýkladrepandi efni sem einnig geta styrkt ónæmiskerfið og jafnvel haft virkni gegn krabbameinsfrumum. Hvönn er sér- lega áberandi í giljum Goðalands og því kemur ekki á óvart að eitt stærsta gilið heiti einmitt Hvannárgil. Það felur sig á bak við tignarlegan Útigönguhöfða (805 m) og eftir botni þess rennur Hvanná sem í vatnavöxtum getur verið farartálmi á leiðinni inn í Þórsmörk. Vaðið er skammt frá Krossá en tveimur km innar skiptist Hvannárgil síðan í Norðurgil og Suðurgil og eru klett- óttar Merkurtungur á milli þeirra.

Ganga meðfram Hvannárgili er stórkostleg upplifun. Hægt er að hefja gönguna í skála Útivistar í Básum eða frá skála Ferðafélags Íslands í Langadal og er þá farið yfir Krossá á göngubrú. Öruggast er að fylgja stikum og halda sig á gilbörmum því Hvanná getur verið illvæð. Stefnt er á Votupalla neðan Útigönguhöfða en í stað þess að halda á tindinn er sveigt til hægri. Þar er gengið í bröttum en grónum hlíðum þar sem falleg hvönn, mosi og annar gróður gleður augað. Gönguleiðin telst ekki erfið en er þó ekki fyrir lofthrædda. Smám saman þrengist gljúfrið uns komið er að Heljarkambi, en hann er einn helsti farartálminn á leiðinni yfir Fimmvörðu- háls. Gengið er norðan hans upp á Morinsheiði, fram hjá Heiðarhorni og niður Kattarhryggi í Bása. Þessi hringur tekur um 6-8 klst. en einnig má taka útúrdúra eins og ganga yfir Fimmvörðuháls í Skóga eða toppa Útigönguhöfða sem er sannkallaður útsýnispallur yfir Goðaland. 

Share on facebook
Deila á Facebook