Fallið í stafi í litagili

Stafafellsfjöll kallast fjallgarðar og dalir upp af Lóni við austanverðan Vatnajökul, svæði sem á síðari árum er oftast kallað Lónsöræfi. Þetta er eitt stærsta friðland á Íslandi, eða 320 km ² að flatarmáli, og náttúruperla á heimsmælikvarða. Stafafellsfjöll eru nefnd eftir jörðinni Stafafelli sem frá fornu fari er sú stærsta í Lóni með fjölda hjáleiga og kirkju. Þessi sundurskornu og litríku fjöll gætu þó allt eins hafa verið nefnd eftir orðtakinu „að falla í stafi“, því allir sem koma í Stafafellsfjöll hrífast af fegurðinni líkt og trétunna sem fellur í sundur þegar stafirnir losna frá járngjörðinni – sem er upprunaleg merking orðatiltækisins. Litadýrð Stafafellsfjalla má þakka líparíti sem einnig er að finna í miklu mæli í fjöllum á Víknaslóðum og Torfajökulssvæðinu. Auk þess skarta Stafafellsfjöll holufyllingum eins og kvarsi, kalsíti og geislasteinum, sem eykur á mikilfengleika þeirra. Hreindýrum bregður fyrir en oftar sauðfé sem kann vel við sig í birkiskógi sem víða teygir sig inn í gil og grasbala eins og við Smiðjunes. Þar er snoturt og vel falið tjaldstæði, en einnig má gista á Stafafelli. 

Frá Smiðjunesi býðst fjöldi skemmtilegra gönguleiða, t.d. að Austurskógi en þaðan má halda áfram göngunni að Illakambi og Múlaskála sem liggur í hjarta Lónsöræfa. Styttri ganga liggur inn í Hvannagil sem er eitt litríkasta gil á Íslandi. Gengið er frá Smiðjunesi að mynni gilsins við Hvannagilshnútu, en einnig má aka þangað. Síðan tekur við þægileg ganga inn gilið sem smám saman þrengist. Á leiðinni blasa við litríkar bergmyndanir en stikla er á steinum yfir á sem liggur eftir gilsbotninum. Smám saman endar Hvannagil og klofnar í enn litríkari Útstúkudal og djúpt árgil sem nefnist Þröng. Haldið er upp hlíðar Fláatinds hægra megin til að ná sem bestu útsýni og sést þá í tröllvaxinn bergstand innar í Útstúkudal. Um er að ræða leifar berggangs, en þeir liggja þarna víða þvert á árfarvegi og torvelda göngu eftir þeim. Ofar er má þó komast yfir ánna í Þröng og síðan gengið eftir bakkanum hinum megin að mótum Útstúkudals og Hvannagils. Þessi krókur er erfiðisins virði því þarna birtist fjöldi fossa sem annars eru í feluleik og minnir litadýrðin helst á olíumálverk. Þarna geta skriður verið lausar undir fæti en leyfilegt að falla í stafi.

Share on facebook
Deila á Facebook