Kerlingarfjöll er þyrping allmargra litríkra líparíttinda mitt á hálendi Íslands. Undir þeim lúrir megineldstöð sem ekki hefur gosið á nútíma en fæðir engu að síður eitt stærsta háhitasvæði landsins. Hverasvæðin eru þrjú og auka enn frekar á litadýrð Kerlingarfjalla sem voru friðlýst sl. sumar. Úr fjarlægð geta fjöllin mitt á kerlingar á tali en nafnið er þó dregið af 25 m háum svörtum klettadrangi sem kallast Kerling og liggur í líparítskriðum fjallsins Tinds. Líkt og Tindur bera flest Kerlingarfjalla karlmannsnöfn og þar nefna Ögmund sem fyrsti íslenski jarðfræðingurinn Þorvaldur Thoroddsen gaf nafn eftir fylgdarmanni sínum, Mæni og síðast en ekki síst Loðmund (1432 m). Hann er næsthæsti tindur Kerlingarfjalla, á eftir Snækolli (1488 m), og tvímælalaust þeirra tilkomumestur. Það gera snarbrött hamrabeltin sem umkringja hann eins og sítt hár en auk þess stendur hann afsíðis sem gerir hann sýnilegri.
Það er krefjandi að ganga á Loðmund en einstök upplifun. Úr Reykjavík eru 200 km að hálendismiðstöðinni í Ásgarði þar sem gista má í herbergjum eða slá upp tjaldi. Þaðan er ekið upp fyrir hverasvæðin að svokallaðri Keis. Þar hefst gangan við jökulhrygg og er í fyrstu gengið eftir jökli sem getur verið sleipur og sprunginn. Því þarf jöklabúnað en fyrri hluta sumars má einnig notast við ferðaskíði. Stefnan er tekin á vesturhlíðar Loðmundar sem státa af snarbrattri snjórennu upp á topp fjallsins. Sveigt er til hægri inn Loðmundargil með Snót á hægri hönd. Smám saman er komið að líparíthrygg sem hægt er að þræða sig eftir upp á Loðmund. Fara verður varlega því líparítið er laust í sér og klettar efst. Af sléttum tindinum býðst ótrúlegt útsýni að Hofsjökli og Þjórsárverum og enn austar sér í Vatnajökul. Langjökull blasir við í vesturátt og beint í suður er Kerlingarfjallaþríeykið Snót, Snækollur og Fannborg. Ofurhugar hafa gengið og jafnvel skíðað niður snjórennuna af Loðmundi en af eigin reynslu mælum við með sömu leið niður. Sprækt göngufólk getur síðan þrætt hryggina að Snót yfir á Snækoll, og þaðan upp á Fannborgu og ofan í Keis. Þetta er langur dagur sem upplagt er að ljúka í heitri náttúrulaug skammt frá Ásgarði.