Mjólkurhyrnan á Sigló

Það eru ekki margir bæir á Íslandi sem geta státað af jafn kynngi mögnuðum fjallahring og Siglufjörður, enda fjörðurinn hluti af Tröllaskaga. Út um eldhúsgluggann blasa við gómsætir konfektmolar sem flestir eru kenndir við hnjúk, líkt og Hestskarðshnjúkur, Pallahnjúkur og Móskógahnjúkur. Þetta á þó ekki við um Hólshyrnu, tígullegan 687 metra háan tind inn af miðjum firðinum, milli Hólsdals og Skútudals, og skammt frá opi jarðganganna yfir í Héðinsfjörð. Fjallið skipar sérstakan sess í hjörtum allra Siglfirðinga og sést oft sem mótív á málverkum og ljósmyndum, en einnig í nöfnum fyrirtækja og félagasamtaka. Hylli Hólshyrnu kemur ekki á óvart því séð frá bænum líkist það píramídalaga samhverfum þrístrendingi. Orðið hyrna er skylt orðinu horn og hefur verið notað í margs konar merkingu, m.a. um hvassa fjallstinda. Þeir sem komnir eru yfir miðjan aldur muna mjólkurhyrnur með fjórum hornum og þríhyrndar hliðar. Þær skutu upp kollinum um miðja síðustu öld þegar farið var að selja mjólk í pappaumbúðum og fljótega festist nýyrðið mjólkurhyrna við þær. Síðar áttu kassalaga og ferhyrndar umbúðir eftir að leysa hyrnurnar af og annað nýrði, mjólkurferna, kom fram á sjónarsviðið. Sumt eldra fólk kallar þó mjólkurfernur enn hyrnur, en varla á Siglufirði því þar tíðkuðust mjólkurhyrnur ekki frekar en annars staðar á Norðurlandi.

Það er óhætt að mæla með göngu á Hólshyrnu sem jafnframt er frábært fjallaskíðafjall. Í vesturhlíðum þess var löngum skíðasvæði Siglufjarðarbæjar og skíðastökkpallur, en árið 1989 var skíðasvæði flutt á enn betri stað í Skarðsdal sem nú telst eitt besta skíðasvæði landsins. Til eru nokkrar leiðir upp á tindinn og er stysta leiðin að norðanverðu upp brattan Álfhyrnuröðul. Í fyrstu er leiðin gróin en síðan taka við leirskriður og klettastallar. Efst býðst einstak útsýni yfir Siglufjörð og áðurnefnda hnjúka en einnig Dísina, brúnaþungan Blekkil og sunnar Prestshnjúk. Hægt er að halda göngunni áfram af Hólshyrnu á Prestshnjúk og þaðan ofan í Skútudal eða Hólsdal. Þessar leiðir eru einnig frábærar fjallaskíðaleiðir og er þá oftast lagt upp frá Skútudal. Af tindi Hólshyrnu má síðan renna sér aftur niður stór- brotinn Skútudal eða halda niður brattari vesturhlíðar Hólshyrnu.

Share on facebook
Deila á Facebook