Í norðanverðu Ísafjarðardjúpi er fallegur fjörður sem ber kuldalegt nafn, Kaldalón, sem þó á ekki við um magnaða náttúruna. Kaldalón er grunnt og víða stingast steinar upp úr leirugum botninum. Innar tekur við gróinn dalbotn með kjarri sem teygir sig upp brattar hlíðar beggja vegna. Niður hátt þverhnípið steypist síðan fjöldi fossa og kallast klettabeltið austan megin Votubjörg. Önnur skemmtileg örnefni eru jökuláin Mórilla og kletturinn Keggsir en í honum er drangur sem heitir Sigga. Í Kaldalóni hefst vinsæl göngu- og skíðaleið á Drangajökul, nyrsta jökul landsins. Gengið er meðfram Mórillu inn að Kaldalónsjökli, skriðjökli frá Drangajökli, sem berst fyrir lífi sínu vegna hlýnandi loftslags. Skammt frá er fallegur foss í Mórillu sem gaman er að skoða.
Auðvelt er að komast upp Kaldalónsjökul og í langri dagsferð má ná hæsta punkti Drangajökuls, Jökulbungu. Hún er 925 m há og sést af henni yfir Jökulfirði og Hornstrandir. Fleiri taka þó stefnuna á tilkomumeiri tind austar sem kallast Hrollaugsborgir (851 m) og býður upp á frábært útsýni yfir Strandir. Einnig má halda niður í Reykjafjörð Nyrðri en þar bíða hús og heit útisundlaug. Fyrir þá sem kjósa styttri göngu er tilvalið að ganga að Kaldalónsjökli og upp með honum uns komið ofan við Votubjörg. Þarna býðst frábært útsýni yfir Kaldalón en einnig hluta Ísafjarðardjúps. Aðeins vestar er Æðey, kirkjustaðurinn Unaðsdalur og jörðin Tyrðilmýri sem er dyragættin að snævi þöktum fjöllum Snæfjallastrandar. Lengst af var búið í Kaldalóni og nágrenni þess og er tónskáldið og læknirinn Sigvaldi Kaldalóns (fæddur 1881) eflaust frægasti ábúandinn. Þarna stundaði hann læknisstörf og samdi tónlist en síðar átti hann eftir að verða á meðal okkar dáðustu tónskálda. Ísland ögrum skorið er talin hans frægasta tónsmíð en önnur þekkt lög eru Á Sprengisandi, Suðurnesjamenn, Hamraborgin, Ave María og Þú eina hjartans yndið mitt.
Sigvalda þótti Kaldalón svo fallegt að hann ákvað rúmlega þrítugur að taka sér ættarnafnið Kaldalóns. Síðar á ævinni veiktist hann illa af taugaveiki og flutti til Flateyjar eftir endurhæfingu á Vífilstöðum og í Danmörku. Hann flutti síðan til Grindavíkur og lést 1946. Skammt austur af Kaldalóni er Skjaldfannardalur en þar eru jökulár sem staðið hefur til að virkja með svokallaðri Austurgilsvirkjun. Landsvirkjun sagði sig þó nýlega frá verkinu sem var skynsamleg ákvörðun því virkjun hefði skert ósnortin víðerni í næsta nágrenni Kaldalóns og ekki viljum við sjá Ísland örum skorið.