Ok verður Blávatn

Ok er með skemmtilegri örnefnum íslenskum en nafnið hefur löngum valdið kátínu og heilabrotum, ekki síst hjá erlendum flugmönnum sem reka augun í örstutt nafnið á kortum þegar þeir fljúga yfir þennan fallega skjöld. Þetta er 1198 m há dyngja með gígskál efst líkt og stóri bróðir Skjaldbreiður og Trölladyngja. Efst var áður jökull sem sást víða að en í dag prýðir toppinn aðeins snjóskafl sem ekki nær einu sinni að þekja gígbarmana. Úr lofti minnir því Ok á smjármynd af hvítu blóðkorni eða spældu eggi með sprunginni rauðu. Undanfarið hefur Ok verið í kastljósi heimspressunar því um síðustu helgi var reistur þar minnisvarði um hinn horfna jökul. Á koparskildi skammt frá á toppnum má lesa fleygt ávarp Andra Snæs rithöfundar til komandi kynslóða. 

Þótt nokkur ár séu síðan Ok fékk dánarvottorð sem jökull þá eru skilaboðin af Oki til heimsbyggðarinnar mikilvæg og skýr: Jöklarnir eru stöðugt að hörfa og sumir þeirra þegar horfnir – og þetta er af okkar völdum. Nú er það á okkar ábyrgð að snúa þróuninni við, og það fyrr en síðar, þannig að komandi kynslóðir fái einnig notið þessara konunga íslenskrar náttúru, jöfra sem jafnframt eru hitamælar á hlýnun jarðar.  Óhætt er að mæla með göngu á Ok þótt ekki sé lengur hægt að skilgreina hana sem jöklagöngu. 

Auðveldast er að hefja för úr Kaldadal sem er gömul þjóðleið milli Þingvalla og Húsafells. Þar sem vegurinn liggur hæst er varða og þaðan er 2 klst. þægilegur gangur á toppinn. Við toppinn bíður minningarskjöldurinn ferðalanga en síðsumars og á haustin má þar einnig sjá  fagurlega blátt gígvatn, þar sem áður var jökulís. Þetta er eitt yngsta stöðuvatn landsins sem uppgötvaðist fyrst 2007 og fékk nafnið Blávatn, og ku vera tæplega 5 m djúpt. Frábært útsýni er af Oki en í góðu veðri sést til alla leið til Snæfellsjökuls en útsýni í hina áttina til Langjökuls, Þórisjökuls, Prestshnjúks, Skjaldbreiðs og Fantófells er enn betra. Önnur og aðeins lengri gönguleið á Ok liggur úr Húsafelli og er ekki síður skemmtileg en leiðin af Kaldadal.

Share on facebook
Deila á Facebook