Upp af Þakgili suðvestur af Mýrdalsjökli eru stórkostlegar náttúruperlur sem eru flestum Íslendingum lítt kunnar. Skýringuna á því kunnum við ekki en ef till vill fælir einhverja að skammt frá lúrir Katla, sem reyndar hefur ekki hefur látið í sér kræla í 101 ár. Það er auðvelt að komast í Þakgil frá Vík í Mýrdal en frá þjóðveginum er greiðfær 15 km akvegur. Þar bíður frábært tjaldstæði inn á milli brattra en grasi gróinna gilja. Úr Þakgili bjóðast spennandi gönguleiðir í allar áttir með útsýni sem á varla sinn líka á Íslandi. Sérstaklega er tilkomumikið að koma upp á Rjúpnagilsbrúnir, skammt frá Mýrdalsjökli, en þangað er tæplega 3 klst. ganga. Þar sést Höfðabrekkujökull steypast fram af snarbröttu klettastáli. Ekki þarf að bíða lengi til að heyra drunur og dynki þegar ísfossar steypast hundruðir metra fram af stálinu ofan í djúpan dal sem þakinn er jökli. Lagskipt ís- og klettastálið liggur í hálfhring og minnir á svalir í óperuleikhúsi, enda sannkallað náttúrleikhús. Fossar sem eru á meðal þeirra hæstu á Íslandi skreyta leikmyndina, en þeir eru merkilegt nokk nafnlausir. Hinum megin í dalnum eru litfögur líparítfjöll sem bera dulúðugt nafn, Huldufjöll.
Til að komast að Huldufjöllum er gengið niður brattar og lausar hlíðar Rjúpnafells og þaðan út á skriðjökul sem austar sameinast Kötlujökli. Til að komast upp á jökulbrúnina þarf jöklabúnað og ofan á jöklinum er best að nota mannbrodda. Gengið er til austurs að Huldufjöllum en handan þeirra er náttúrperla í felum – sem jafnframt er einn einangraðasti staður á Íslandi, Hulinsdalur. Einangrunina getur hann þakkað úfnum skiðjöklum og snarbröttum grasi grónum fjöllum í allar áttir. Þarna þvælist sauðfé ekki og því þurfa bændur ekki að smala Hulinsdal. Á leiðinni heim er hægt tilvalið aðganga eftir Kötlujökli að upptökum Múlakvíslar. Áður en komið er þangað er hægt að þræða sig niður af jöklinum og aftur upp á Höfðabrekkuafrétt eftir bröttum en grasi grónum brekkum. Þaðan er haldið áfram að Þakgili. Þarna er auðvelt að villast og því skynsamlegt að vera í för með staðkunnugum. Þetta er krefjandi 25 km long ganga, en algjört augnkonfekt. Fyrir þá sem kjósa styttri göngu þá er hægt að ganga fram og til baka að Rjúpnabrekkugilsbrúnum á hálfum degi og berja náttúrleikhúsið augum.